Staðan á hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025 var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði í vikunni. Tíu kílómetrar af sérstökum hjólastígum hafa bæst við frá árinu 2021 og eru þeir orðnir 42 kílómetrar samtals. Margt spennandi er á döfinni eins og nýjar hjólabrýr í Elliðaárdal, hjólaskápar fyrir kennara, æfingasvæði í Gufunesi.
Reykjavíkurborg vinnur markvisst að því lengja stígakerfi til hjólreiða, bæta aðstöðu til hjólreiða sem hvetur einnig börn til að hjóla í skólann. Fjárfestingar í nýjum hjólreiðainnviðum í Reykjavík eiga að vera að lágmarki 5 milljarðar á tímabilinu.
Vaxandi samgöngumáti
- Tíu kílómetrar af sérstökum hjólastígum hafa bæst við frá árinu 2021 og eru þeir orðnir 42 kílómetrar.
- Markmiðið um lengd hjólastíga árið 2025 er 50 kílómetrar, 5000 hjólastæði og að meira en 90% íbúa í Reykjavík búi innan við 150 metra frá hjólastíg árið 2030.
- Ný hlaupahjólastæði voru sett upp á árinu 2023 sem telja 790 stæði fyrir órafknúin hlaupahjól en skólastjórnendur höfðu óskað eftir þessu því vandasamt var að geyma hjólin inni. Nú læsa krakkarnir þeim sjálf í stæðum sérstaklega ætluð fyrir yngri kynslóðina.
- Lokið hefur verið við að uppfylla markmiðið að 20% nemenda að meðaltali hafi stæði fyrir reiðhjól og hlaupahjól við nánast alla grunnskóla borgarinnar. Komin eru um 4.800 stæði í heildina við 37 grunnskóla í borginni.
- Ágústmánuður 2023 kom vel út í hjólateljurum sem finna má í borgarvefsjá. Samkvæmt ferðavenjukönnun árið 2022 hjóla 6% Reykvíkinga og 2% ferðast um á rafhlaupahjólum, þá hefur fótgangandi fjölgað einnig.
Í heildina litið eru hjólreiðar vaxandi sem samgöngumáti og ætti þeim að fjölga árlega miðað við bætta innviði.
Hjólabrýr og aðrir kostir
- Lokið hefur verið við tvo af þremur áföngum úr hjólreiðaáætlun í Elliðaárdal ofan við Höfðabakkabrú og framundan er útboð á þriðja áfanga sem tengir hjólastíginn alla leið að Breiðholtsbraut.
- Hafin er vinna við undirbúning að gerð Pumptrack hjólasvæði í Gufunesi sem æfingasvæði hjólreiða til að æfa jafnvægislist, fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.
- Samtal er hafið við Samtök sveitarfélaga Suðurnesja og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um gerð hjólastíga milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur.
- Lokið er við fjallahjólabraut á Úlfarsfelli.
- Hjólatyllum hefur fjölgað og eru þær núna 14 á sjö stöðum og mun fara fjölgandi. Markmiðið er að settar verði upp tyllur á stöðum þar sem stöðva þarf á rauðu ljósi á hjólastíg.
- Hjólaskápar í Reykjavík eru tilraunaverkefni fyrir grunnskóla. Kennurum í tveimur skólum hefur staðið til boða að prófa og nýta þá, komið er þannig til móts við skort á hjólageymslum fyrir starfsfólks grunnskólanna. Þetta hvetur einnig til fjölbreyttari samgöngumáta.
Enn fremur hefur verið settur á laggirnar starfshópur til að kanna leiðir til að draga úr þjófnaði á hjólum í samstarfi við lögreglu, tryggingarfélög og grasrótarsamtök.