Hjólandi fjölgað um tæp 7% á höfuðborgarsvæðinu

Hjólaborgin Samgöngur

Kona á reiðhjóli á gatnamótum.

Hjólaárið 2022 hefur verið mælt í teljurum sem finna má víða á hjólastígum á höfuðborgarsvæðinu. Árið var gott hvað hjólreiðar varðar og hefur hjólandi greinilega fjölgað. Ef skoðaðir eru fjórir síðustu mánuðir ársins ber það hæst að dagsmet var sett í september 2022 og fjöldamet var í nóvember sem er það besta frá því mælingar hófust.

Sjötti september stendur upp úr

Sá dagur sem skorar hæst árið 2022 er 6. september með 15.062 hjól talin.

Besti dagurinn í nóvember var fyrsti dagur mánaðarins með 6.736 hjól.

Desember var fremur lélegur hjólamánuður vegna mikils snjóþunga og almennrar ófærðar eftir að veðráttan breyttist snarlega 17. desember. Sá dagur sem sker sig úr í desember er fimmti dagur mánaðarins en þá voru 4.314. hjól á ferðinni.

Fæstir notuðu hjólið þann 17. desember en þá töldust aðeins 108 hjól. Nefna má til samanburðar að 17. desember 2021 var fremstur meðal jafningja árið 2021 eða samtals 4.266 hjól talin - enda var desember 2021 fremur góður hvað veður varðaði.

* Ef september- desember 2021 og 2022 eru bornir saman þá má segja að tala hjólandi hafi aukist um 6,84% á öllu höfuðborgarsvæðinu og um 10,39% á eftirtöldum sex lykilstöðum innan Reykjavíkur: Nauthólsvík, Ægisíða, Harpa, Glæsibær, Geirsnef og Elliðaárdalur við Sprengisand/Reykjanesbraut (undirgöng), sjá línurit á myndum

Teljarar eru víða á höfuðborgarsvæðinu, sjá borgarvefsjá, þekjuleit: umferð, umferðartalningar, talningar á hjólandi/gangandi.

* (Ekki er hægt að fullyrða um töluna fyrir allt árið, vegna þess að nokkrir teljarar voru óvirkir fyrri hluta ársins).

#hjólateljarar 

Skýringarmyndir