Hinsegin fræðsla til íþróttafélaga          

Mannréttindi

""

Reykjavíkurborg og Samtökin '78 undirrituðu í dag þjónustusamning til þriggja ára en þar er í fyrsta sinn fjármagn merkt hinsegin fræðslu til íþróttafélaga.

Samningurinn felur í sér fræðslu til barna og ungmenna í grunnskólum og frístundastarfi borgarinnar. Einnig er styrkur fyrir félags og ráðgjafaþjónustu fyrir hinsegin fólk í borginni og aðstandendur þeirra. Fjármagn fer einnig í rekstur hinsegin félagsmiðstöðvar og rekstur skrifstofu Samtaka '78.

Hinsegin fræðsla innan íþróttabandalags Reykjavíkur, sem er ný af nálinni, felst í fræðslu til starfsfólks og sjálfboðaliða félaganna.

Auk árlegs framlags að upphæð 8.7 milljónir til Samtakanna '78 vegna samningsins er gert ráð fyrir að tvær milljónir verði greiddar af mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu til reksturs hinsegin félagsmiðstöðvar á árinu 2021.

Á síðastliðnum árum hefur aðsókn í hinsegin félagsmiðstöð Tjarnarinnar og Samtakanna ’78 stóraukist og í haust hafa mætt yfir hundrað ungmenni í hverri viku.

Reykjavíkurborg hefur, eitt sveitarfélaga,  frá árinu 2017 verið með sérfræðing í málefnum hinsegin fólks sem vinnur að verkefnum tengdum hinsegin málefnum. Þannig hefur Reykjavíkurborg lagt sitt af mörkum til þess að auka þekkingu og veita fræðslu innan kerfis sem utan.

Borgin hefur m.a. ráðist í verkefni um hinsegin fólk og heimilisofbeldi, gert gátlista um trans og hinsegin börn í skólum ásamt því að gera sérstaka upplýsingasíðu. 

Þá hefur regnbogavottun Reykjavíkurborgar litið dagsins ljós, en tilgangur hennar er að gera starfsstaði og þjónustu borgarinnar hinseginvænni.