Heitavatnslaust á stóru svæði frá 19. ágúst

Loftmynd af Breiðholti, borgin og sólarlag í baksýn

Heitavatnslaust verður í Breiðholti, Norðlingaholti, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og á Álftanesi frá kl. 22 mánudaginn 19. ágúst þar til á hádegi miðvikudaginn 21. ágúst. 

Lokað verður fyrir flutningsæð hitaveitu, Suðuræð, sem flytur heita vatnið frá jarðvarmavirkjunum á stóran hluta af höfuðborgarsvæðinu.  

Verið er að tengja fyrsta áfanga Suðuræðar 2 við dreifikerfið og þá þarf að taka heita vatnið af. Áhrifin eru mikil á stórt svæði. Tíminn og tækifærið verða nýtt vel og öðrum aðkallandi verkum sinnt samtímis.

Grafískt kort af höfuðborgarsvæðinu. Rauðlitað svæði í Kópavogi, Hafnarfirði, Breiðholti og víðar sem sýnir svæði án heits vatns í ágúst 2024.

Lokunin hefur áhrif á stóran hluta höfuðborgarsvæðisins.

Eðlilega getur komið sér illa fyrir íbúa og fyrirtæki að vera án heits vatns og er lokunin skipulögð á þeim tíma þegar minnst notkun er á heitu vatni. Tenging stofnæða er stórt og tímafrekt verk en kappkostað verður að vinna það hratt og örugglega.  

Mánudagskvöldið 19. ágúst hefst vinna við að tæma heita vatnið af Suðuræð til að hægt sé að tengja nýju lögnina. Tæming tekur nokkrar klukkustundir og þá hefst vinna á fimm ólíkum stöðum í kerfinu. Bætt verður við búnaði, rekstraröryggi nýrra hverfa aukið og nauðsynlegu og fyrirbyggjandi viðhaldi í kerfinu sinnt. Viðamesta verkið er að tengja Suðuræð 2, en að því loknu verður heita vatninu hleypt á kerfið aftur hægt og örugglega.  

Svæðið sem verður heitavatnslaust er allur Hafnarfjörður, Garðabær, Álftanes, Kópavogur (fyrir utan Lund), Norðlingaholt, Breiðholt, Almannadalur og Hólmsheiði. 

Gangi allt eftir áætlun ætti kerfið að hafa náð fullum þrýstingi um hádegisbil miðvikudaginn 21. ágúst. 

Markmiðið er að auka flutningsgetu hitaveitunnar til að allir íbúar á svæðinu hafi nauðsynlega innviði og lífsgæði til framtíðar.  

Hér verður hægt að fylgjast með framkvæmdinni á meðan á henni stendur.

Information in English.

Leiðbeiningar fyrir húseigendur frá Félagi pípulagningarmeistara.