Hámarkshraði lækkaður í Múlum og við Háaleitisbraut

Samgöngur

Arctic Images/Ragnar Th.
Loftmynd yfir Múlahverfi í Reykjavík.

Hámarkshraði verður lækkaður í Ármúla, Selmúla, Síðumúla, Vegmúla, Fellsmúla, Hallarmúla og Háaleitisbraut í samræmi við hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar. Markmið áætlunarinnar er að stuðla að bættu umferðaröryggi í Reykjavík til að koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki í umferðinni. Nauðsynlegt er að draga úr umferðarhraða til að ná því.

Þetta var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gær.

Hámarkshraðaáætlunin var samþykkt vorið 2021 en ákveðið var að ráðast í þennan hluta hennar nú ekki síst vegna skólastarfsemi í Ármúla þar sem grunnskólanemendur eru mikið á ferðinni á svæðinu.

Þessum hluta flýtt

Vilji er til að innleiða hámarkshraðaáætlun tiltölulega hratt. Því var ákveðið var að flýta þessum hluta hennar og breyta samhliða hámarkshraða í nærliggjandi götum við Ármúla, meðal annars til þess að lágmarka þörf á því að flytja eða setja upp ný umferðarmerki fljótt (með tilheyrandi raski og kostnaði). Unnið er að undirbúningi næsta áfanga innleiðingar hámarkshraðaáætlunar þar sem áhersla verður á götur innan og í nágrenni við íbúahverfi.

Það er yfirlýst markmið Reykjavíkurborgar að enginn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysum innan borgarinnar. Það er því ekki réttlætanlegt að fórna heilsu vegfarenda fyrir aðra hagsmuni samfélagsins, eins og til dæmis minni tafir. Sé ætlunin að koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki í umferðinni þar sem ólíkir ferðamátar mætast verður blöndun ólíkra ferðamáta að vera á forsendum gangandi og hjólandi vegfarenda. Eitt skref í þá átt er að stuðla að lágum umferðarhraða við þær aðstæður.

Svona eru breytingarnar

  1. Háaleitisbraut, frá Kringlumýrarbraut að Ármúla, hámarkshraði verði 40 km/klst, í stað 50 km/klst.
  2. Háaleitisbraut, frá Miklubraut norður fyrir Safamýri að núverandi 30 km/klst svæði, hámarkshraði verði 40 km/klst, í stað 50 km/klst.
  3. Háaleitisbraut, frá Ármúla að núverandi 30 km/klst svæði,hámarkshraði verði 40 km/klst, í stað 50 km/klst.
  4. Lágmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
  5. Hallarmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
  6. Ármúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
  7. Selmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
  8. Síðumúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
  9. Vegmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
  10. Fellsmúli, frá Grensásvegi að núverandi 30 km/klst svæði, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.