Hagkvæmt húsnæði við Sjómannaskóla og Skerjafjörð

Skipulagsmál Hverfisskipulag

""

Byggðar verða milli 70 og 100 íbúðir í nýju hverfi við Skerjafjörð og á milli 50 og 60 íbúðir við Sjómannaskólann.

Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, undirritaði í dag fyrir hönd Reykjavíkurborgar lóðarvilyrði við Félagið Vaxtahús ehf og Félagið HOOS1 ehf. um byggingu hagkvæms húsnæðis sem verða boðnar ungu fólki og fyrstu kaupendum til sölu. Deiliskipulagsvinna í hverfinu hefst fljótlega og er gert ráð fyrir því að henni ljúki fyrir árslok.

Alls lagði Reykjavíkurborg fram níu reiti vegna verkefnisins og er gert ráð fyrir því að fleiri vilyrði verði samþykkt í borgarráði í maí næstkomandi.

Í verkefni borgarinnar um hagkvæmt húsnæði er gert ráð fyrir því að ungt fólk á aldrinum 18-40 ára hafi forgang um kaup á íbúðum. Sá forgangur mun einnig gilda um endursölu íbúðanna. Auk þess er takmörk á því hversu mikið verð íbúðanna getur hækkað. 

Borgarráð samþykkti á síðasta ári að leggja fram þróunarreiti á sjö stöðum í verkefnið. Þetta voru ríkislóðirnar: Skerjafjörður, Sjómannaskólinn og Veðurstofuhæð. Auk þess voru lagðar fram þróunarlóðir við Gufunes og Ártúnshöfða. Loks var gerð tillaga um að leggja fram lóðir við nýtt hverfi í Úlfarsárdal og í Grundarhverfi á Kjalarnesi. Sextán teymi skiluðu inn hugmyndum fyrir frestinn þann 8. ágúst.

Nánar um hagkvæmt húsnæði

Í Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sem var samþykkt í borgarstjórn þann 6. júní 2017 voru tilgreindar sérstakar tillögur um ódýrari íbúðir, ungt fólk og fyrstu kaupendur þar sem áhersla var lögð á uppbyggingu á ríkislóðum sem hafa gengið til borgarinnar en einnig þróunarsvæði við Ártúnshöfða og Gufunes.

Á síðasta ári stóð starfshópurinn fyrir hugmyndaleit að lausnum varðandi hagkvæmt húsnæði og hélt ráðstefnu þann 16. mars sl. um málefnið þar sem nokkrum aðilum úr var boðið að halda framsögur um sínar hugmyndir að hagkvæmu húsnæði. 

Nánar um hugmyndaleit hagkvæmt húsnæði hér