Hækkun á styrk svifryks vegna sandfoks frá Suðurlandi

Heilbrigðiseftirlit

Sandfok byrgir sýn.
Sandfok yfir sjónum í Reykjavík.

Hækkun er í dag mánudaginn 29. ágúst á styrk svifryks í borginni vegna sandfoks frá söndunum á Suðurlandi. Styrkur svifryks (PM10) er hár. Klukkan 12.00 var klukkustundargildi svifryks við Grensásveg 121 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar var klukkustundargildið 272,4 míkrógrömm á rúmmetra. Sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk (PM10) eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk (PM10) eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.  Þess má geta að gildi PM2,5, sem er fínna svifryk sem fer lengra niður í lungun, var 65,6 míkrógrömm á rúmmetra í mælistöðinni við Bústaðaveg/Háaleitisbraut.  Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) mælir með að sólarhringsgildi PM2,5 fari ekki yfir 15 míkrógrömm á rúmmetra. Engin sólarhringsmörk eru fyrir PM2,5 í íslenskri löggjöf.

Upptök sandfoksins eru á söndunum á Suðurlandi samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist ef þeir finna fyrir óþægindum.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. 

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu.

Kort yfir loftgæði.