Hækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs í borginni | Reykjavíkurborg

Hækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs í borginni

miðvikudagur, 31. október 2018

Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) er hár í borginni í dag, 31. október, skv. mælingum í mælistöðinni við Grensásveg. Slík mengun er beintengd umferðinni þegar hún er mest kvölds og morgna í stilltu veðri eins og er í dag.

  • Myndin sýnir mengun frá umferð í Reykjavík.
    Loftgæði í dag eru ekki góð samkvæmt mælingum en köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða. Hægt er að bæta loftgæði á höfuðborgarsvæðinu t.d. með því að nota ekki nagladekk sem valda margfalt meiri svifryksmengun en venjuleg vetrardekk.

Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnanna og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægviðri og frosti í dag og umtalsverðar líkur á því að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk við Grensásveg.  Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra.  Búast má við svipuðum veðuraðstæðum næstu daga.

Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndurvegi.  Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk köfnunarefnisdíoxíðs og annarra mengandi efna á vefsíðunni Loftgæði í Reykjavík. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík. Önnur loftgæðafarstöð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er nú staðsett í nágrenni Egilshallar við gatnamótin Fossaleyni/Víkurvegur. Verið er að uppfæra svifrykstæki í hinn farstöðinni og hún því ekki í gangi.