„Reykjavík er jólalegri en nokkru sinni fyrr. Það hefur aldrei verið skreytt svona mikið áður,“ segir Arna Kristjánsdóttir starfsmaður garðyrkjudeildar Reykjavíkurborgar. Hún er skapandi hugmyndasmiðurinn á bakvið sérstaklega flotta jólaskreytingu í gróðurhúsinu á Lækjartorgi í ár. Þar má sjá Grýlu og Leppalúða bardúsa í hellinum sínum.
Arna fékk hugmyndina út frá því að gróðurhúsið stendur jú beint við hliðina á jólakettinum sjálfum. „Ég fór að velta fyrir mér hvaða þema ég gæti unnið með. Þarna er það svarti kötturinn sem stelur athyglinni. Ég hugsaði - það vantar auðvitað Grýlu og Leppalúða,“ segir Arna sem bar hugmyndina undir samstarfsfólk sem leist vel á þetta. Hún fór í það að útfæra hugmyndina nánar og fékk tvær samstarfskonur í lið með sér við vinnuna.
Skötuhjúin gömlu eru skorin út í plötur og er skemmtilegt form á þeim en listræn útfærsla hugmyndarinnar ætti ekki að koma á óvart í ljósi þess að Arna er fatahönnuður að mennt.
Þegar rýnt er í senuna má sjá að það eru höfuð ofan í stóra pottinum, Leppalúði er tilbúinn með saltstaukinn til að braðgðbæta barnasúpuna, og Grýla er með poka sem er hægt að ímynda sér að búi yfir meiri innihaldsefnum í réttinn ógurlega. Ljósasería kemur í staðinn fyrir eld og svo er frekari eldiviður tilbúinn til hliðar fyrir þau. Dimmt er í kringum útstillinguna, enda er þarna búið að endurskapa hellinn sem er íverustaður hjónanna.
Sjálf skreytir Arna ekki mikið heima við fyrir jólin. „Ég fæ útrás fyrir skreytiþörfina í vinnunni og er sama þó vanti skraut heima,“ segir hún.
Gróðurhúsið er allt komið í jólabúning en fyrir framan hellinn er allt mjög jólalegt og huggulegt. Grýla og Leppalúði sjást vel inn um gluggana á gróðurhúsinu en einnig er hægt að fá að skoða þau nánar og tylla sér innandyra á opnunartíma gróðurhússins sem er 8-15 virka daga.
Hugmyndasmiðurinn Arna Kristjánsdóttir er menntaður fatahönnuður og er starfsmaður garðyrkjudeildar Reykjavíkurborgar.