Gróskumikið starf grunnskóla verðlaunað
Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur efnir til hvatningarverðlauna fyrir leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarf á vegum borgarinnar ár hvert. Verðlaun fyrir starf í grunnskólum voru afhent í gær á öskudagsráðstefnu grunnskólakennara og –stjórnenda.
Markmið hvatningarverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer í skólum borgarinnar. Verðlaunin eiga að veita starfsfólki jákvæða hvatningu, ásamt því að viðhalda og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Verðlaunin eru viðurkenning fyrir vel unnin verk í þágu náms og kennslu og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra.
Að þessu sinni bárust 14 tilnefningar vegna jafn margra verkefna. Tilnefningarnar sem bárust bera merki um þá miklu grósku sem er í skóla- og frístundastarfi í borginni þrátt fyrir erfiðar aðstæður í heimsfaraldrinum.
Allt skólafólk fái verðlaun
Dómnefnd þótti sérlega vænt um eina tilnefningu sem því miður féll ekki að vinnureglum nefndarinnar en þar var lagt til að allt skólafólk í Reykjavík hlyti hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs vegna þess að allt þetta fólk hefur staðið vaktina á fordæmalausum tímum, verið í framvarðasveit við mjög krefjandi aðstæður síðustu tvö ár og ekki hvað síst síðustu mánuði. Allt skólafólk þurfi á því að halda að störf þess séu metin að verðleikum, ekki bara á tyllidögum heldur alltaf.
Foldaskóli og furðusögur
Furðusögur er valfag á unglingastigi sem er hugsað fyrir aðdáendur furðusagna en sú bókmennta- og kvikmyndagrein hefur notið aukinna vinsælda meðal ungmenna. Markmiðið er að gefa nemendum innsýn í töfrandi fjölbreytileika furðusagna með því að lesa furðusögur eftir mismunandi höfunda, þjóðsögur og goðsögur víðsvegar að úr heiminum og horfa á furðukvikmyndir. Skoðuð eru minni, vísanir og aðrar tengingar milli furðubókmennta nútímans og fornra þjóðsagna og goðsagna. Annað markmið er að auka sköpunargleði nemenda og styrkja þá til að tjá sig á fjölbreyttan hátt. Nemendur velja sér verkefni út frá eigin áhugasviði og styrkleika og hafa m.a. skapað sína eigin guði og ævintýraheima, gert stuttmyndir, tónlistarmyndbönd og hlaðvörp, búið til myndverk, spil og ljósmyndaseríur um leið og þeir æfa félagsfærnina sem felst í samstarfi við aðra. Dómnefnd sagði hér vera á ferðinni skemmtilegt verkefni þar sem farnar eru óhefðbundnar leiðir þvert á námsgreinar til að mæta áhugasviði nemenda. Verkefnið nær til nemenda sem e.t.v. eru ekki áhugasamir um hefðbundið námsefni, farið er út fyrir rammann varðandi lesefni og nemendur úr ólíkum áttum vinna saman. Hér er nýbreytni dregin skýrt fram og komið til móts við ólíkar þarfir og styrkleika nemenda.
Húsaskóli verðlaun fyrir val á miðstigi
Haustið 2019 fór Húsaskóli af stað með þróunarverkefnið „Val á miðstigi“ þar sem nemendur í 5. – 7. bekk fá tækifæri til að velja milli námskeiða í list – og verkgreinum, íþróttum, útikennslu og upplýsinga- og tæknimennt fjórum sinnum í viku. Valið nær til átta kennslustunda á viku og eru tvö valnámskeið í boði á hverju valtímabili og skiptist skólaárið í fimm valtímabil. Markmið verkefnisins er að stuðla að auknum samskiptum nemenda milli árganga, að efla vinnugleði og gefa nemendum kost á að velja sér viðfangsefni og auka þannig lýðræði í skólastarfi. Námsmat í vali byggist á hæfniviðmiðum aðalnámskrár sem og frammistöðumati. Vinnugleði, samskipti og þátttaka er einkennandi fyrir þessar kennslustundir sem hefur smitandi áhrif yfir í aðrar kennslustundir. Í grein sinn Gróska í framboði á valnámskeiðum í grunnskólum nefnir Ingvar Sigurgeirsson að líklega sé það Húsaskóli sem gangi hvað lengst í vali á miðstigi. Að mati dómnefndar hefur Húsaskóli greinilega haft forystu um að bjóða fjölbreytt og áhugavert val fyrir nemendur á miðstigi sem hefur jákvæð áhrif á nám og kennslu í öðrum greinum.
Laugarnesskóli fær verðlaun fyrir Spjöld í smáum höndum
Í Laugarnesskóla var tekin ákvörðun um að auka áherslu á upplýsingatækni í skólastarfinu og gera tækninotkun markvissari, sérstaklega á yngsta stigi enda falla kennsluhættir þess aldurshóps mjög vel að þeim fjölbreyttu og skapandi vinnubrögðum sem spjaldtölvur bjóða upp á. Markmiðið var að allir nemendur skólans hefðu spjaldtölvu til einkanota í skólanum fyrir árið 2025 og hófst innleiðing í níu bekkjardeildum í 3. og 4. bekk haustið 2020. Tveir kennarar hafa í hvoru árgangateymi tekið að sér leiðtogahlutverk og innleitt breytta kennsluhætti samhliða því að leiðbeina samkennurum og styðja við framþróun á kennsluháttum þeirra. Kennararnir hafa verið óþreytandi við að kynna forrit, verkfæri og kennsluhugmyndir fyrir sínum teymum og þannig stuðlað að jákvæðum breytingum á námi nemenda þar sem fjölbreytni, sköpun og einstaklingsmiðun eru í öndvegi. Dómnefnd þótti verkefnið áhugavert framtak við að breyta kennsluháttum í yngstu árgöngum skólans. Áhugasamir kennarar taka að sér forystuhlutverk við leiðbeina samkennurum og styðja þá við að breyta sínum kennsluháttum og gera þá markvissari og áhugaverðari fyrir nemendur.
Afhending hvatningaverðlauna 2022
Verkefni sem hlutu viðurkenningu
Dómnefnd ákvað einnig að veita viðurkenningar fyrir þrjú verkefni. Verkefnin og viðurkenningarnar hafa beina skírskotun í menntastefnu Reykjavíkurborgar og tengjast grundvallarþáttum hennar og leiðarljósum.
Hólabrekkuskóli fyrir Lesbjörg
Í tilnefningu kemur fram að markmið verkefnisins sé að valdefla foreldra og gefa þeim bjargir til að aðstoða börn sín við heimalestur og um leið auka eigin færni í íslensku. Farin var sú leið að gera upptökur af heimalestrarbókum sem notaðar eru á yngsta stigi. Upptökurnar verða aðgengilegar öllum á heimasíðu skólans, auk fræðslumyndbanda um lestrarkennslu sem eru einföld og skýr. Lesbjörg veitir foreldrum bjargir til að aðstoða börn sín við heimalestur og þar með valdefla bæði foreldra og börn. Dómnefnd horfði til þess að rannsóknir sýna að foreldrar eru mikilvægir samstarfsaðilar við að þjálfa lestrarfærni barna og því nauðsynlegt að styðja foreldra í þessu hlutverki, sérstaklega þá sem þurfa á því að halda.
Hagaskóli fyrir verkefnið Lesskilningur
Á alþjóðlegum degi læsis var nýju gagnvirku lesskilningsverkfæri hleypt af stokkunum í Hagaskóla. Hugmyndin að baki verkefninu er að til verði gagnvirkur lesskilningsvefur sem er í senn matstæki fyrir kennara og skólayfirvöld og æfingatæki fyrir nemendur. Verkefnið byggir á þeim grunni að nemendur séu alltaf að lesa texta við hæfi og geti með virkni unnið sig upp í þrepum. Grein um verkefnið hefur m.a. birst í Skólaþráðum. Dómnefnd telur að leggja beri áherslu á lesskilning nemenda alla skólagönguna því hann er grunnur að öllu bóklegu námi. Hér er á ferðinni áhugaverð leið til að einstaklingsmiðaða þjálfun og leiðbeinandi mat á lesskilningi nemenda sem gefur bæði kennurum, skólayfirvöldum og nemendum upplýsingar um stöðu nemenda í lesskilningi og hvaða þætti þurfi að þjálfa betur.
Samstarfsverkefni Víkurskóla og Listasafns Reykjavíkur
Samstarfsverkefni list- og verkgreinakennara í Víkurskóla og Listasafns Reykjavíkur spratt úr samtali kennara og safnakennara safnsins um ólíkt aðgengi nemenda að safninu eftir búsetu en Víkurskóli er staðsettur í norðanverðum Grafarvogi. Fáir nemendur skólans höfðu farið á listasafn og var það áhyggjuefni. Úr samtalinu spratt svo tilraunaverkefni þar sem allir nemendur í 9. bekk heimsóttu sýninguna Abrakadabra í Listasafninu með leiðsögn og unnu svo skapandi verkefni út frá sýningunni. Afrakstur vinnunnar hefur verið sýndur nokkur fimmtudagskvöld í örsýningum og nefnast Hittingur með Listasafni Reykjavíkur. Dómnefnd þótti verkefnið áhugavert þar sem fjarlægðin er ekki látin standa í vegi fyrir því að fara út fyrir veggi skólastofunnar og tengja skapandi vinnuna sem fer fram innan hennar út í samfélagið og inn fyrir veggi listasafnsins. Í verkefninu eru einnig farnar óhefðbundnar leiðir í kennslu sem byggjast á samvinnu og tilraunum til frekari þróunar í skólastarfi.
Dómnefnd
Í dómnefndinni sátu Alexandra Briem, skóla- og frístundaráði Diljá Ámundadóttir Zoega , skóla- og frístundaráði Elín Oddný Sigurðardóttir, skóla- og frístundaráði Jórunn Pála Jónasdóttir , skóla- og frístundaráði Örn Þórðarson, skóla- og frístundaráði Katrín Cýrusdóttir, fulltrúi skólastjóra Ragnheiður Inga Davíðsdóttir, fulltrúi foreldra. Verkefnin sem hlutu verðlaun fengu myndverk eftir Einar Baldursson listamann á Sólheimum.