Framkvæmdir hefjast á næstunni við endurgerð grenndarstöðvarinnar við Klambratún en gámar á yfirborði verða fjarlægðir og þeir leystir af hólmi með djúpgámum. Markmiðið með endurgerðinni er að fegra umhverfið og bæta aðgengi íbúa að flokkun. Stöðin er sú vinsælasta í Reykjavík og sú eina sem er með tvo gáma fyrir pappír en þá þarf að jafnaði að tæma fjórum sinnum í viku.
Yfirborð stöðvarinnar verður endurgert og hellulagt umhverfis gámana. Grenndarstöðvar í djúpgámum falla vel að grónum byggðum og eru aðgengilegri en hefðbundnar grenndarstöðvar á yfirborði.
Á stöðinni verður hægt að flokka plast, pappír, gler og málma. Þá er gert ráð fyrir söfnunarskápum fyrir textíl, flöskur og dósir en með nýjum lögum varð skylda fyrir íbúa að flokka þessa flokka frá blönduðum úrgangi ásamt spilliefnum og matarleifum.
Grenndarstöðin verður opin á meðan á framkvæmdatíma stendur en framkvæmdir geta haft þau áhrif á köflum að aðgengi verði ekki jafngreitt að núverandi grenndarstöð. Ef ekkert óvænt kemur upp má gera ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í maí.
Við hlökkum til að opna nýja og betri grenndarstöð með sumrinu!