Ákvæði um gróðurþekju í einkagörðum í Vogabyggð eru ekki íþyngjandi og eru þessi svæði hluti af heildarmynd hverfisins. Frá upphafi hefur verið lögð mikil áhersla á m.a. styrkingu vistkerfis og aukna líffræðilega fjölbreytni, blágrænar ofanvatnslausnir og notkun gróðurs þ.á.m. tré, runna og gróðurþekju á lóð og þökum.
Ekki var samþykkt að breyta skilmálum á svæði 2 í Vogabyggð varðandi að fella niður ákvæði í skilmálmum um 50% gróðurþekju innan svæða til einkaafnota. Slíkt hefði verið í mótsögn við markmið byggðarinnar. ÞG íbúðir ehf óskuðu eftir breytingunni.
Verktaki vildi fella niður kröfu um gróðurþekju í einkagörðum en græn svæði einkagarða eru mikilvægur þáttur af grænni ásýnd Reykjavíkurborgar og gefa borginni skemmtilegt yfirbragð.
Áhugaverð og vistvæn byggð
Í umsögn skipulagsfulltrúa segir að eitt af markmiðum í skipulagi Vogabyggðar sé að skapa jákvæðar forsendur fyrir áhugaverða og vistvæna byggð. Brýnt var fyrir hönnuðum, lóðarhöfum og öðrum að kynna sér vel alla skilmála sem gilda fyrir hönnun bygginga og útirýma á viðkomandi lóð auk þess að átta sig á samhengi byggðarinnar í tengslum við framtíðarþróun nánasta umhverfis.
Á svæði 2 í Vogabyggð er uppbygging á mörgum lóðum langt komin og íbúar fluttir inn í mörg húsanna. Umræddir sérskilmálar eru hluti af heildarhugsun hverfisins og ekki fæst séð að um sé að ræða íþyngjandi ákvæði. Snjallir hönnuðir geta útfært margvíslegar lausnir ef það er vilji lóðarhafa að útbúa einkagarða á jarðhæðum íbúða á uppbyggingarlóðum. Að auki hefur útfærslan verið hluti af heildarmynd hverfisins frá upphafi og hluti af gróðurþekju viðkomandi lóða.
Reykjavík er græn borg
Reykjavík er græn borg og vill vera það og sú staða er meðal annars tilkomin vegna allra einkagarðanna sem snúa að götunum og setja svip sinn á borgina. Gott og vel hannað borgarumhverfi þarf að vera þannig að gróður og náttúra fléttist inn í það.
Græn svæði eru eins og vítamínsprauta fyrir framtíðina og hafa mikil áhrif á framtíðarlýðheilsu borgarbúa. Mikilvægt er að standa vörð um réttinn til leiks og hreyfingar fyrir börn.
„Fyrir börn sem lifa við græn svæði og fá þessa náttúru inn í sitt daglega líf hefur þetta áhrif á hreyfiþroska, félagsþroska og andlegan þroska. Það eru minni líkur á að börn sem alast upp nærri grænum svæðum þrói með sér geðræn vandamál,“ sagði Katrín Karlsdóttir skipulagsverkfræðingur sem er enn fremur með meistarapróf í umhverfissálfræði í viðtali við Fréttablaðið. Hún sagði ennfremur: „Það mætti leggja meiri áherslu á þennan hóp. Umhverfi sem er gott fyrir börn er gott fyrir alla, eins og varðandi öryggismál, aðgengi, upplifun og annað.“
Greinar um jákvæð áhrif gróðurs í borgum á líðan og heilsu:
Urban Forestry & Urban Greening eftir Pál Jakob Lindal og Terry Hartig