Grænar áherslur í fjárhagsáætlun 2020

""

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 og fimm ára áætlun til 2024 var samþykkt á fundi borgarstjórnar í kvöld.

Mikil áhersla er lögð á græn verkefni Reykjavíkurborgar í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 en alls er gert ráð fyrir 4,6 milljörðum króna til grænna fjárfestinga auk þess sem framlög til skóla- og velferðarmála er aukin. Reykjavíkurborg fjárfestir fyrir rúma 20 milljarða króna á næsta ári.
 

Framlög aukin til velferðar- og skólamála

Í samþykktum breytingartillögum á milli umræðna eru framlög aukin til samgöngusamninga, græns bókhalds, hinsegin félagsmiðstöðvar og fjölgunar fartölva og tæknibúnaðar í leikskólum, grunnskólum og frístundaþjónustu. Framlög eru einnig aukin til velferðarmála  vegna neyðarskýlis við Grandagarð, foreldraþjálfunar og nýrra stöðugilda í barnavernd. Að auki var samþykkt að halda áfram verkefninu Tinnu sem hefur að markmiði að styðja unga einstæða foreldra og framlög til Bataskólans samþykkt.

Þá er gerð breytingartillaga í fjárfestingaráætlun vegna kostnaðar við framkvæmdir sem lúta að umferðaröryggi grunnskólabarna og annarra í norðanverðum Grafarvogi.  

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að áætlunin endurspegli þó ákveðna óvissu sem uppi er í efnahagslífinu: „Staðan í efnahagslífínu krefst þess að við séum enn betur á varðbergi gagnvart efnahagsumhverfinu. Við mætum samdrætti með traustri fjármálastjórn, hóflegri hagræðingarkröfu en líka metnaðarfullri fjárfestingaráætlun borgarsjóðs og borgarfyrirtækja, meðal annars með öflugri uppbyggingu í húsnæðismálum. Þannig beitum við styrk borgarinnar til að hafa jákvæð áhrif á hagkerfið,“ segir Dagur og bætir við. „Á næsta ári stígum við einnig stór skref við að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og ný verkefni á sviði velferðar verða áberandi eins og innleiðing NPA og nýtt stuðningsnet í þjónustu við börn og fjölskyldur.“

Fjárfest grænum verkefnum og íþróttamannvirkjum

Meðal helstu fjárfestinga Reykjavíkurborgar á næsta ári er metnaðarfull uppbygging íþróttamannvirkja, ekki síst í Breiðholti og Úlfarsárdal, á svæðum ÍR í Suður-Mjódd þar sem verið er að byggja fjölnota íþróttahús og frjálsíþróttaaðstöðu, og athafnasvæði Fram í Úlfarsárdal þar sem skóflustunga hefur þegar verið tekin að fjölnota íþróttahúsi, knattspyrnustúku og keppnisvelli en þar er að auki verið að byggja útisundlaug og menningarmiðstöð. Laugavegur verður einnig gerður að varanlegri göngugötu og Hlemmtorg verður endurgert á næstu árum.

„Grænar áherslur eru gegnumgangandi í þessari áætlun og loftslagsmál ávallt í forgrunni hjá þessum meirihluta – hér eftir sem hingað til. Reykjavíkurborg leggur mikla áherslu á grænar lausnir til að ná markmiðum í loftslagsmálum sem er til hagsbóta fyrir íbúana. Það er því ánægjulegt að sjá ríkið taka við sér á þessu sviði og tryggja fjármögnun Borgarlínu með samgöngusamningi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil einnig í því samhengi nefna samkomulag við ríkið um að kanna flugvallarkostinn í Hvassahrauni á næstu tveimur árum. Þá hafa öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu lagt fé til nýrrar jarð- og gasgerðarstöðvar Sorpu sem mun taka við lífrænum úrgangi frá heimilum og fyrirtækjum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Hann nefnir einnig að borgin ætli sér að halda alþjóðlega skipulagssamkeppni um Samgöngumiðstöð við BSÍ.

Gert ráð fyrir 13 milljarða króna afgangi af samstæðu

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir 2,5 milljarða króna afgangi af A-hluta og að rekstrarniðurstaða samstæðu borgarinnar, A-hluta og B-hluta, verði jákvæð um 13 milljarða króna.