Götubitahátíðin í Hljómskálagarðinum

Gestir skoða úrvalið

Götubitahátíðin verður haldin í fimmta skiptið helgina 19. - 21. júlí í Hljómskálagarðinum. 

Hátíðin er stærsti matarviðburður á Íslandi og hefur það að markmiði að bjóða upp á nýja og spennandi matarupplifun í Sumarborginni Reykjavík.

Síðustu ár hefur matarvögnum farið fjölgandi og í ár mæta um 30 matarvagnar og sölubásar til leiks. Hátíðin var fyrst haldin árið 2019 og komu um 15 þúsund gestir í Hljómskálagarðinn. Í fyrra komu um 50 þúsund gestir á hátíðina til að gæða sér á góðum mat og veigum, það má því allt eins búast við enn fleirum í ár.

Boðið verður upp á tónlist, leiktæki og hoppukastala fyrir yngri kynslóðina, það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi enda um sannkallaða fjölskyldugleði að ræða. 

Á hátíðinni fer fram keppnin um „Besti Götubiti Íslands 2024” og mun sigurvegarinn keppa fyrir hönd Íslands á stærstu götubitakeppni í heimi, „European Street Food Awards“. Keppnin verður haldin í Þýskalandi í lok september, þar sem 19 þjóðir keppa um besta götubitann í Evrópu. Til gamans má geta að Silli kokkur sem sigraði „Besti Götubiti Íslands 2022“  fór út að keppa fyrir hönd Íslands sama ár og var þar í öðru sæti yfir besta götubitann, og í fyrsta sæti í flokki hamborgara.

Hægt er að fá meiri upplýsingar um hátíðna á https://reykjavikstreetfood.is


Sjáumst um helgina og smökkum hvaða götubiti okkur þykir bestur!´

Matargestur