Nýtt hverfisskipulag Hlíða-, Háteigs- og Öskjuhlíðarhverfis fer nú í auglýsingu og kynningu eftir að borgarráð samþykkti það 9. nóvember. Kynningartíminn stendur í átta vikur, til 11. janúar 2024.
Hverfisskipulag er skipulagsáætlun fyrir gróin hverfi og kemur í stað eldri deiliskipulagsáætlana sem felldar verða úr gildi með samþykkt hverfisskipulagsins. Hverfisskipulagið er afrakstur umfangsmikils samráðs við fagaðila, íbúa, stofnanir og aðra sem koma við sögu.
Áður hefur hverfisskipulag fyrir Árbæ og Breiðholt verið samþykkt og tekið gildi. Stefnt er að því að ljúka við gerð hverfisskipulags fyrir öll hverfi borgarinnar árið 2027.
Hverfisskipulagsverkefnið snýst um að auka gagnsæi og samræmi skipulagsheimilda þannig að fólk geti gert breytingar á eigin húsnæði án þess að fara í gegnum tímafrekan feril. Settar eru fram skýrar heimildir um viðbyggingar, þakhækkanir og kvisti sem dæmi, einnig eru heimilaðar lyftur og aukahæð við fjölbýlishús þar sem aðstæður leyfa. Einnig er gerð grein fyrir heimildum fyrir aukaíbúðum, starfsemi og ýmsu öðru. Með hverfisskipulagi fylgja leiðbeiningar sem útfæra heimildir skipulagsins nánar sem fylgja þarf þegar skipulagsheimildir eru nýttar
Öll gögn skipulagsins verður að finna á síðunni um Hlíðarnar, þar má finna bæði helstu hápunkta og smáatriði.
Grænt Holtatorg
Í vinnutillögum að hverfisskipulagi voru kynntar hugmyndir um nýtt torg við mót Skipholts, Stórholts og Einholts þar sem í dag eru bílastæði. Í tillögunum hefur þetta nýja torg verið kallað Holtatorg þó ekki sé búið að ákveða formlega nafn á torgið.
Hugmyndirnar fengu góðar viðtökur þegar þær voru kynntar og í hverfisskipulagi er gert ráð fyrir að torgið byggist upp í tengslum við endurhönnun borgargötunnar við Skipholt. Við hönnun torgsins verður lögð áhersla á grænt yfirbragð til að búa til aðlaðandi dvalarsvæði á þessum stað þar sem borgargatan með fjölbreyttri verslun og þjónustu mætir þéttri íbúðabyggð.
Nokkrir áhugaverðir punktar úr hverfisskipulaginu
- Byggðin í Norðurmýri og sunnanverðu Rauðarárholti fær hverfisvernd.
- Með hverfisskipulagi Hlíða fylgja samþykktar teikningar að nýjum svölum fyrir hús í Rauðarárholti og Norðurmýri sem ekki hafa svalir í dag.
- Skilmálar hverfisskipulags segja til um hvar heimilt er að hækka þök og útbúa kvisti og hvar ekki.
- Hverfisskipulag gefur heimildir fyrir ýmiskonar smáhýsum og skýlum á lóð sem auðveldar íbúum að aðlaga húsnæði sitt að nútímaþörfum.
- Endurhönnun borgargatna í hverfunum getur breytt ásýnd hverfa, dregið úr umferðarhraða og aukið öryggi og lífsgæði íbúa. Aukið verður við trjágróður og lögð áhersla á hverfistorg og almenningsrými sem nýtast íbúum.
- Víða eru ekki taldir miklir möguleikar til breytinga á fjölbýlishúsum. Þó eru gefnar heimildir fyrir auka hæð og lyftu við fjölbýlishús meðfram Bogahlíð til að bæta aðgengi að íbúðum á efri hæðum.
- Í stað verkbækistöðvar sem er á milli Kjarvalsstaða og skeifunnar í norðausturhorninu, komi afgirtur garður þar sem lausaganga hunda verði leyfð. Þar er einnig lagt til að komið verið fyrir almenningssalernum.
Skólar og leikskólar
Samhliða vinnu við hverfisskipulag hefur verið gott samstarf við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar við greiningu á húsnæðisþörf leik- og grunnskóla í hverfinu út frá mannfjöldaspám og uppbyggingaráætlunum í hverfunum. Í skilmálum fyrir skóla- og leikskólalóðir eru því rúmar heimildir til viðbygginga og endurbóta á núverandi húsnæði.
Framundan
Á meðan kynningartíma stendur er hægt að gera athugasemdir við tillögur að hverfisskipulagi í Skipulagsgáttinni á vef Skipulagsstofnunar, skipulagsgatt.is.
Kynning á hverfisskipulagi Hlíða hefst formlega 16. nóvember og stendur í 8 vikur. Sýning á tillögunum verður í þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12- 14 og stendur til 11. janúar 2024. Íbúafundur verður með borgarstjóra 21. nóvember á Kjarvalsstöðum þar sem tillögurnar verða sömuleiðis til sýnis frá 21. - 23. nóvember.