Gott að búa við öryggi í eigin íbúð

Velferð Mannlíf

""

Þessa dagana eru íbúar í nýjum íbúðakjarna velferðarsviðs í Árbænum að koma sér fyrir í íbúðum sínum. Sex einstaklingar hafa fengið íbúð í kjarnanum, sem er í nýjum og fallegum fjölbýlishúsum sem Félagsbústaðir keyptu af Bjargi íbúðafélagi fyrir hönd velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. 

 

Fyrsti íbúinn í nýjum íbúðakjarnanum er Axel Haugen. Hann er þessa dagana í óðaönn við að innrétta íbúðina sína, þar sem honum segist líða mjög vel. Áður en hann fékk íbúð í kjarnanum leigði hann herbergi á frjálsum markaði og hefur reynt ýmislegt hvað búsetu varðar á sinni ævi. „Við sem höfum prófað að búa á götunni erum ánægð með allt húsnæði en það er sérstaklega gott að vera hér, ekki síst að búa við svona mikið öryggi. Svo er dásamlegt starfsfólk hérna, svo ég er bara mjög ánægður,“ segir hann. „Íbúðin er yndisleg og alveg mátulega stór fyrir einn mann. Ég er búinn að kaupa mér moppu til að skúra. Nú þarf ég bara að kaupa mér sóp og fægiskóflu, því ég ætla að reyna að halda íbúðinni þrifalegri og fínni.“

Það berst í tal að Axel á eftir að sækja pöntun sem hann gerði hjá Rúmfatalagernum. „„Finnum tíma fyrir það í vikunni, er það ekki?“ segir Sólveig Dögg Birgisdóttir, sem er forstöðumaður nýja kjarnans. Axel svara því að hann vilji helst fara á morgun og bætir við: „Hún hjálpaði mér að kaupa það inn sem vantar og svo förum við saman að sækja það. Það er frábært að hafa svona dygga aðstoðarmenn.“

Það er í samræmi við stefnu velferðarsviðs í þjónustu við fatlað fólk, að hún er skipulögð eftir þörfum notandans, þar sem þeim hentar. „Við erum með fjölbreyttan hóp íbúa og breitt aldursbil, svo það eru mjög mismunandi þarfir hjá hverjum og einum. Sumir þurfa aðstoð við lyfjagjöf, við að viðhalda virkni, fara út að versla eða annað. Við aðlögum okkur að þeim stuðningi sem íbúar þurfa en ekki öfugt,“ segir Sólveig.

Kjarninn er hluti af uppbyggingaráætlun velferðarsviðs í húsnæðis fyrir fatlað fólk sem var samþykkt árið 2017 hjá velferðarráði og borgarráði. Það er nýlunda í þjónustu við fatlað fólk að íbúðirnar sex sem tilheyra kjarnanum eru dreifðar um nokkur fjölbýlishús. Auk Sólveigar verða átta starfsmenn í kjarnanum en þeir hafa aðsetur í einni íbúðanna. Þar er skrifstofa auk sameiginlegs rýmis sem bæði er ætlað starfsfólki og íbúum. Þar geta þeir komið saman, spjallað og fengið sér kaffi, jafnvel horft á mynd eða fótboltaleik saman, hafi þeir áhuga á því. 

Sólveig er ánægð með að íbúar kjarnans fái sína eigin íbúð. „Ef þeir vilja kynnast betur er það á þeirra forsendum. Fólk sem lendir í að veikjast eða fatlað fólk á ekki frekar en aðrir að þurfa að búa með einhverjum sem það ekki þekkir eða velur ekki sjálft að búa með. Þetta er í samræmi við hugmyndafræðina um sjálfstætt líf, sem við vinnum eftir á velferðarsviði. Í henni felst að hver einstaklingur hefur rétt á að lifa sínu eðlilega og sjálfstæða lífi, óháð fötlun sinni eða veikindum.“ 

Í kjarnanum líkt og annars staðar á velferðarsviði er jafnframt unnið út frá batamiðaðri nálgun. Í henni felst að bati hvers einstaklings er ólíkur. „Áður fyrr var litið svo á að fólk með geðrænan vanda næði aðeins bata ef einkennin hyrfu. Nú er þetta metið út frá bata hvers og eins. Ef einstaklingur getur lifað með sínum einkennum og líður vel má líta svo á að hann sé í góðum bata,“ útskýrir Sólveig. 

Þá hefur Sólveig áhuga á að innleiða þjónandi leiðsögn í starfsmannahópnum, sem hún segir ganga út á að hver starfsmaður líti inn á við, átti sig á styrkleikum sínum og veikleikum þegar kemur að samskiptum. „Þetta starf gengur að svo miklu leyti út á samskipti og það skiptir miklu máli að íbúarnir hér treysti okkur,“ segir hún og bætir því við að lokum að hún hlakki til að byggja starfsemi og menningu kjarnans upp í góðri samvinnu íbúa og starsfólks.