Gosmóða og gasmengun frá eldgosinu við Sundhnúksgígaröð

Heilbrigðiseftirlit

Tjörnin, brúin og Hljómskálinn í gosmóðu

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands liggur gosmóða og gasmengun yfir höfuðborginni. Gosmóða inniheldur mengun sem hefur náð að umbreytast meðal annars í SO4 (súlfat) og greinist hún því ekki með hefðbundnum mælingum á  brennisteinsdíoxíði (SO2) en mælingar á fínna svifryki gefa vísbendingar um að þessi mengun sé til staðar. Í dag hafa mælst hækkuð gildi af fínna svifryki og einnig hækkuð gildi brennisteinsdíoxíðs á mælistöðvum víða á höfuðborgarsvæðinu.

Gosmóða eða blámóða (e. Volcanic smog) er loftmengun sem verður til þegar SO2, önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka með tilstuðlan sólarljóssins. Hún hefur einkennandi blágráan lit sem myndast er sólarljósið brotnar á ögnum/úða.

Gosmóða getur orsakað slen, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk flensueinkenna. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu. Þeir sem eru síður viðkvæmir geta einnig fundið fyrir einkennum. Ekki er mælt með því að láta ung börn sofa úti í vagni við þessar aðstæður.

Almennar ráðleggingar varðandi gasmengun eru eftirfarandi:

  • Lungna- og hjartasjúklingar hafi sín lyf tiltæk.
  • Anda sem mest með nefi og forðast líkamlega áreynslu utandyra í mikilli mengun því það dregur úr þeim styrk sem kemst niður í lungu.
  • Dvöl innanhúss með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu veitir verulega vörn fyrir menguninni.
  • Athugið að rykgrímur veita enga vörn gegn gasmengun.
  • Ráðstafanir til varnar SO2 og annarri mengun innandyra:
    • Lokið gluggum og minnkið umgengni um útidyr.
    • Hækkið hitastigið í húsinu.
    • Loftið út um leið og loftgæði batna utandyra.

Auk ofangreindra upplýsinga má finna ráðleggingar vegna heilsufarslegra áhrifa af völdum loftmengunar á síðu landlæknis. Mælingar á loftgæðum eru aðgengilegar á vef Umhverfisstofnunar, www.loftgaedi.is, nánari leiðbeiningar um viðbrögð við styrk SO2 má fá með því að smella á tengil í vinstra horni síðunnar. Spár um gasmengun má sjá á vef Veðurstofunnar.