Göngugötur í miðborginni á Airwaves

Umhverfi Samgöngur

""

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin verður haldin 2.-6.nóvember næstkomandi. Fjöldi gesta á hátíðinni er áætlaður níu þúsund en fjöldi hliðartónleika í miðborginni sem ekki er selt á dregur þúsundir til viðbótar á tónleika í nafni hátíðarinnar. Á fundi borgarráðs í dag var samþykkt tillaga um að gera hluta Laugavegs og Skólavörðustígs að göngugötum tímabundið á meðan hátíðin stendur yfir. Tillagan fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar á fundi hennar 1. nóvember.

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin verður haldin 2.-6.nóvember næstkomandi en á hátíðina koma um sex þúsund erlendir gestir. Á sama tíma verður töluvert af „off-venue“ tónleikum eða hliðarviðburðum út um alla borg. Hliðarviðburðirnir eru opnir fyrir alla og því má gera ráð fyrir mun fleiri gestum á hátíðina en þeim níu þúsund sem hafa keypt miða. Hátíðin setur mikinn svip á borgina og henni fylgir fjölbreytt mannlíf. Flestir tónleikar á hátíðinni verða miðsvæðis í borginni og því er kjörið að bjóða upp á göngugötur á nokkrum svæðum. 

Samkvæmt tillögunni verður hluta Laugavegs og Skólavörðustígs breytt í göngugötur í fimm daga, frá 2. nóvember til 6. nóvember, frá miðvikudegi til sunnudags. Eftirtaldir hlutar gatnanna verða göngugötur; Laugavegur frá Vatnsstíg að gatnamótum Bankastrætis og Þingholtstrætis og Skólavörðustígur, frá gatnamótum Bergstaðastrætis að Bankastræti.

Vöruafgreiðsla frá bílum verður leyfð í göngugötunum frá kl. 7 – 11 á morgnana.

Auk þessa verður Bankastræti lokað vegna viðburðar í tengslum við Airwaves og Pönksafn Íslands þann 2. nóvember frá kl. 15:00 – 00:00.

Á þeim tíma verður ekki hægt að aka niður Þingholtsstræti og Skólastræti að Bankastræti. Upplýst verður vel um viðburðinn og íbúum kynnt fyrirhuguð lokun.