Göngugata í níu skrefum

Umhverfi Skipulagsmál

""

Skipulags- og samgönguráð samþykkti í dag nýtt deiliskipulag fyrir Laugaveg sem göngugötu en hluti Laugavegs, Skólavörðustígs og Vegamótastígs verður gerður að varanlegum göngugötum. 

Unnið verður í framhaldinu að hönnun ýmissa lausna til að bæta götuna og umhverfið. Gert er ráð fyrir að endurnýja allt yfirborð, gróður, götugögn og lýsingu.

Framkvæmdir í áföngum með minna raski

Framkvæmdir verða unnar í níu áföngum. Takmarkið er að rask við framkvæmdir verði sem minnst og einblínt verður á eitt svæði í einu til að forðast neikvæða upplifun. Áherslan er því ekki á allsherjar endurbætur með stórum vinnuvélum og tilheyrandi truflunum heldur verður unnið með smærri skala.

Framkvæmdir verða í samvinnu við rekstrar- og fasteignaeigendur.

Afmörkun svæðis er Laugavegur og Bankastræti frá Klapparstíg að Þingholtsstræti. Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar. Vegamótastígur frá Laugavegi að Grettisgötu.

Meira líf og aukin upplifun

Markmiðið með framkvæmdunum er að gæða göturnar meira lífi með því að veita gangandi vegfarendum aukið rými. Þannig  er skapað betra verslunarumhverfi sem svarar nýjum áskorunum þar sem upplifun og þjónusta eru stór þáttur.

Áhersla er lögð á að auka upplifun þeirra sem um svæðið fara með því að skapa eftirtektarvert rými hvort sem það er með leiksvæðum, setaðstöðu eða gróðri.

Öryggi og aðgengi í fyrirrúmi

Laugavegurinn hefur verið helsta verslunargata Reykjavíkur frá fornu fari samhliða lifandi mannlífi og menningu.  Vegna sögu sinnar og starfsemi hefur gatan mikið aðdráttarafl fyrir gesti og gangandi, jafnt innlenda sem erlenda. Markmiðið með breytingunum er að fanga anda miðborgarinnar og fíngerðan skala hennar og sömuleiðis mynda sterka tengingu frá Hlemmi að Kvos.

Vönduð borgarhönnun með öryggi og vellíðan gangandi vegfarenda verður í fyrirrúmi. Algild hönnun með aðgengi fyrir alla verður höfð að leiðarljósi við útfærsluna í samráði við notendur og hagsmunasamtök. Alls voru haldnir níu fundir um fyrirhugaðar breytingar með hagsmunaaðilum á síðasta ári.

Við göngugötusvæðin eru bílastæðahús, bæði Bergsstaðir og Traðarkot, alls 328 stæði. Einnig eru bílastæðahús í Kolaportinu og Hafnartorgi, alls 1266 stæði.

Tengill

Deiliskipulag Laugavegur

Kynning á nýrri nálgun á Laugavegi