Göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár við Dimmu

Samgöngur

Dimma

Gamla brúin yfir Dimmu við Breiðholtsbraut verður löguð tímabundið og gerð nothæf aftur. Ný brú verður tilbúin til notkunar sumarið 2023.

Gamla brúin löguð tímabundið

Í júníbyrjun verður ráðist í bráðabirgðaviðgerðir á brúnni yfir ána Dimmu við Breiðholtsbraut, það er gert með smíði á nýjum timburtröppum og skábraut yfir þær gömlu uns ný brú verður reist. Sá hluti Elliðaáa sem rennur vestan Víðivalla heitir Dimma, en áin ber Dimmunafnið allt frá Selásfossi ofan við Vatnsveitubrú að Elliðavatnsstíflu.  

Dimma kom mjög illa undan vetri þannig að tröppur teljast ónýtar á henni og hún er að auki orðin hættuleg. Brúin þjónaði upphaflega sem lagnaleið fyrir heitt og kalt vatn, og var jafnframt göngubrú.

Nýja brúin

Nýja brúin verður staðsett um 200 metra neðan við núverandi brú. Hún verður lágreist trébrú með aðskildum göngu- og hjólastígum. Vonir standa til þess að ný brú verði komin í gagnið sumarið 2023 og að bráðabirgða aðgerðir á núverandi brú standist áraunir og notkun þangað til.

Ný göngu- og hjólabrú yfir Dimmu og nýir göngustígar um svæðið verða lagðir í tengslum við framkvæmdir við nýjan Arnarnesveg og tengingu hans við Breiðholtsbraut.

Frekari upplýsingar

Úti Inni Arkitektar og Verkís verkfræðistofa unnu forhönnun brúarinnar í samstarfi við Vegagerðina og Reykjavíkurborg. Baldur Ólafur Svavarsson hjá Úti Inni Arkitektum er arkitekt brúarinnar.