Góður árangur í söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi

Brúnar tunnur eru fyrir lífrænan eldhúsúrgang.

Sorpa gerði nýverið flokkunargreiningu á sérsöfnuðum lífrænum eldhúsúrgangi í Hamrahverfi í Grafarvogi og komu niðurstöðurnar vel út. Úrgangurinn sem safnaðist er 98% jarðgeranlegur. Reykjavíkurborg þakkar íbúum kærlega fyrir að hafa staðið sig vel í flokkuninni.

Helstu niðurstöður:

  • Lífrænt efni er er 89,3%
  • Niðurbrjótanlegir maíspokar 6,3%
  • Pappír og pappi 2,4%

Nánari niðurstöður flokkunargreiningarinnar má skoða á meðfylgjandi myndum. Flokkun hjá þátttakendum í tilraunaverkefninu er mjög góð og einungis tæplega 2% af úrganginum óæskileg efni sem ættu að fara í annan farveg.

Hvers vegna ætlum við hætta að urða lífrænan úrgang og endurvinna hann frekar?

  • Til að uppfylla markmið ríkis og sveitarfélaga um að hætta urðun lífræns úrgangs og mæta kröfu um aukið endurvinnsluhlutfall.
  • Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun.
  • Nýta orku og næringarefni í eldhúsúrgangi en útkoman er metan og jarðvegsbætir.
  • Flokkun og skil til endurvinnslu hvetur til aukinnar meðvitundar um úrgang og getur leitt til breyttrar neysluhegðunar.

Samræming sorphirðu framundan

Sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi hófst í Hamrahverfi haustið 2020. Þá bættist brún 140 lítra tunna við öll hús í hverfinu. Einnig var litlu söfnunaríláti til að nota í eldhúsi dreift til allra heimila sem og maíspokum til að nota fyrstu vikurnar. Einnig hefur sérsöfnun verið í gangi á Kjalarnesi frá árinu 2019 sem hluti af undirbúningi fyrir sama verkefni. Þar hefur verið safnað í tvískiptar tunnur sem áformað er að verði í boði fyrir flokkun við einbýli og raðbýli við innleiðingu á samræmdu flokkunarkerfi.

Næstu áramót taka gildi ný lög um söfnun á úrgangi við heimili. Sorphirða verður samræmd á höfuðborgarsvæðinu og verður lífrænum eldhúsúrgangi safnað sérstaklega. Í nýja sorphirðukerfinu verður fjórum úrgangsflokkum safnað við öll heimili. Flokkarnir eru lífrænn eldhúsúrgangur, pappír og plastumbúðir auk blandaðs heimilissorps.

Niðurstöðurnar