Góð skilaboð sem vekja athygli og vellíðan vegfarenda

Skiltin sýna ýmsar leiðir að vellíðan.

Vegfarendur um borgina kunna á síðustu dögum að hafa tekið eftir fallegum teikningum á  auglýsingaskiltum, með einföldum skilaboðum um að staldra við og taka eftir umhverfinu. Myndirnar eru eftir teiknarann Hlíf Unu Bárudóttur en þeim er ætlað að minna vegfarendur á einfaldar leiðir til að auka lífshamingju og vellíðan.

Það er Vesturmiðstöð Reykjavíkurborgar sem fékk Hlíf Unu í verkefnið. „Tökum eftir“ er einmitt ein af fimm leiðum að vellíðan sem byggja á rannsóknum um þá þætti hafa mest áhrif á að auka hamingju og vellíðan. Fimm leiðir að vellíðan eru hluti af heilsueflandi samfélagi en það er verkefni sem embætti landlæknis vinnur að í samstarfi við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök og fleiri. Reykjavíkurborg starfar jafnframt eftir lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar en aðalmarkmið hennar er að skapa umhverfi og aðstæður til að auka heilsu og hamingju íbúa og að allir borgarbúar hafi tækifæri á að njóta lífsins í borg þar sem þeim finnst gott að búa í. Í stefnunni felst að unnið sé markvisst að því að virkja alla til þátttöku
 í samfélaginu á eigin forsendum. Áhersla er lögð á að heilbrigt samfélag þrífst á fjölbreytileika og þátttöku allra.

Vilja ná til sem flestra í samfélaginu

„Við fengum styrk úr Lýðheilsusjóði Vesturmiðstöðvar til að innleiða fimm leiðir að vellíðan og það höfum við verið að gera á undanförnum tveimur árum. Við höfum kynnt þær markvisst í stofnunum þeirra hverfa sem heyra undir Vesturmiðstöð, til dæmis í skólum, leikskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, íbúðakjörnum fyrir fatlað fólk og starfsfólki vesturmiðstöðvar. Við viljum reyna að ná til sem flestra í samfélaginu og hafa jákvæð áhrif á líðan þeirra og fimm leiðir að vellíðan eru vel til þess fallnar, því þetta eru þættir sem allir geta tileinkað sér og sett inn í sína daglegu rútínu,“ segir Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, verkefnastjóri á Vesturmiðstöð. „Við vildum að þessi fallega mynd yrði sem flestum sýnileg og standarnir eru mjög góð leið til að ná til íbúanna í hverfunum.“

Meðal annars mikilvægt að halda í forvitnina

Í þeim teikningum Hlífar Unu Bárudóttur sem þegar hafa birst er sem fyrr segir unnið með leiðina „tökum eftir“ sem felur í sér að halda í forvitnina, taka eftir hinu óvenjulega og vera í núinu. Veggspjöldum hefur meðal annars verið dreift í skóla, félagsmiðstöðvar og samfélagshús borgarinnar.

Veggspjald sem sýnir leiðir að því að taka betur eftir umhverfi sínu.

Á næstu mánuðum verður svo unnið með hinar leiðirnar til vellíðunar en þær eru:

  • Myndum tengsl
  • Hreyfum okkur
  • Höldum áfram að læra
  • Gefum af okkur

Um leiðirnar allar má lesa meira á vef Heilsuveru.

Sigríður Arndís segist hafa fylgst með vegfarendum staldra við auglýsingaskiltin og sýna jákvæð viðbrögð við þeim. „Til þess var leikurinn einmitt gerður. Ef fólk staldrar aðeins við, tekur eftir, þá er tilganginum náð. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að minna okkur á þær leiðir sem eru færar til að skapa betri líðan og meiri lífshamingju. Þetta eru einfaldar leiðir en þær virka!“