Gleðilega þjóðhátíð

Frá skrúðgöngunni þar sem skátarnir gengu í broddi fylkingar frá Hallgrímskirkju
Frá skrúðgöngunni þar sem skátarnir gengu í broddi fylkingar frá Hallgrímskirkju

Þjóðhátíðardagskráin í Reykjavík hófst á Austurvelli í morgun með hátíðardagskrá.

Dagskráin hófst með samhljómi kirkjuklukkna í Reykjavík klukkan 10.00 og haldin var guðsþjónusta í Dómkirkjunni þar sem sr. Sveinn Valgreisson, predikaði og þjónaði fyrir altari ásam frú Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands.

Að lokinni guðsþjónustu hófst formleg dagskrá á Austurvelli, í blíðskaparveðri, og var fjöldi fólks saman kominn til að fylgjast með athöfninni. Athöfnin  hófst á því að forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, lagði blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. Kransaberar voru Tera Rún Jórunn Júlíusdóttir, nýsveinn í framreiðslu frá Menntaskólanum í Kópavogi og Tómas Böðvarsson, nýstúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti því næst hátíðarræðu. Fjallkonan í ár er Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona, og flutti hún ávarp sem var ljóð eftir Jónas Reyni Gunnarsson ljóðskáld.

Karlakórinn Fóstbræður flutti ættjarðarlög í athöfninni og hornleikarar voru þeir Stefán Jón Bernharðsson, Asbjørn Ibsen Bruun, Emil Friðfinnsson og Frank Hammarin í Sinfóníuhljómsveit Íslands.  

Að lokinni athöfn á Austurvelli fór skrúðganga með skátum í fararbroddi og Lúðrasveit Reykjavíkur í Hólavallakirkjugarð. Þar lagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur eiginkonu hans. Kransaberar voru þau Tera Rún Jórunn Júlíusdóttir, nýsveinn í framreiðslu frá Menntaskólanum í Kópavogi og Tómas Böðvarsson, nýstúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð.

Klukkan 13.00 fer skrúðganga frá Hallgrímskirkju í Hljómskálagarðinn. Hátíðadagskrá verður bæði í Hljómskálagarði og á Klambratúni. Sjá nánar dagskrá á 17juni.is

Gleðilega hátíð!