Gervigrasvellir endurnýjaðir

mánudagur, 7. mars 2016
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag tillögu borgarstjóra um endurnýjun  á gervigrasvöllum.
  • Ungar stúlkur leika knattspyrnu á gervigrasvelli við Frostaskjól í Reykjavík. Nú hefur verið lögð fram áætlun um endurnýjun gervigrasvalla í borginni.
    Ungar stúlkur leika knattspyrnu á gervigrasvelli við Frostaskjól í Reykjavík. Nú hefur verið lögð fram áætlun um endurnýjun gervigrasvalla í borginni.
Í eigu Reykjavíkurborgar eru níu keppnis- og æfingavellir með gervigrasi. Kynnt hefur verið áætlun í borgarráði um endurnýjun vallanna. Samkvæmt áætluninni verður hafist handa við Víkingsvöll á þessu ári en þar verður skipt um gras og gúmmí. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 50 milljónir króna.  Lögð verður nýjasta tegund af gervigrasi  á völlinn og nýtt gúmmí sem litar ekki út frá sér.
 
Í greinargerð með tillögunni segir að æfinga og gervigrasvöllur Víkings hafi verið byggður árið 2009. Límingar á vellinum hafa gliðnað og mynda ójöfnur auk þess sem strá gervigrasmottunnar hafa lagst niður. Undir grasinu er 25 mm gúmmípúði sem verður nýttur áfram.
 
Þá er gert ráð fyrir að gervigrasvellir hjá Fylki og KR verði endurnýjaðir að vori 2017 auk þess sem skipt verður um gúmmíkurl í gervigrasvelli hjá Fram í Úlfarsárdal. Áætlaður framkvæmdakostnaður við endurnýjun gervigrasvalla árið 2017 er 155 milljónir króna.
 
Kostnaður vegna Víkingsvallar rúmast innan fjárfestingaráætlunar 2016.
 

Greinargerð um gervigrasvelli í eigu Reykjavíkurborgar

Í eigu Reykjavíkurborgar eru 9 keppnis- og æfingagervigrasvellir. Allt frá árinu 2010 hefur sú stefna verið af hálfu Reykjavíkurborgar að setja ekki svart SBR gúmmíkurl í þessa gervigrasvelli. Þessi ákvörðun var tekin í ljósi þess að fram höfðu komið ábendingar um að svart SBR kurl gæti hugsanlega verið heilsuspillandi. Mikil umræða hefur síðan farið af stað á undanförnum vikum og mánuðum í fjölmiðlum um gúmmíkurl í gervigrasvöllum Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hefur aflað upplýsinga um gúmmíkurl og gervigrasvelli. Á grundvelli þeirra upplýsinga er ekki talin nauðsyn á að skipta því út. Engar óyggjandi sannanir liggja fyrir um það hvort gúmmíkurlið sé hættulegt eða ekki.
Áætlaður kostnaður við að skipta út SBR gúmmíi í þeim gervigrasvöllum sem það hafa, er um 105 m.kr.
Lífaldur gervigrasvalla er undir eðlilegum kringumstæðum 7 – 10 ár, en þá þarf að skipta um gervigrasmottuna og setja nýtt gúmmíkurl í kjölfarið. Búið er að gera viðhaldsáætlun um hvenær skipt verði um gervigrasmottur hvers vallar. Því mun Reykjavíkurborg halda sig við þá stefnu sem að mótuð var árið 2010 að gervigrasvellir verði ekki endurnýjaðir með SBR gúmmíi og að útskipting á SBR gúmmíi verði framkvæmd í kjölfar viðhaldsverkefna á hverjum velli samkvæmt viðhaldsáætlun. Það verði því ekki farið í að skipta út SBR gúmmíinu eingöngu í einni aðgerð.
 
Gervigrasvöllur í Úlfarsárdal
 
Árið 2011 var gervigrasvöllur í Úlfarsárdal lagður. Þá var keypt gúmmíkurl í völlinn sem var grænhúðað SBR gúmmíkurl, en húðunin átti að tryggja að gúmmíið héldist grænt og jafnframt að bæta gæði kurlsins. Í ljós hefur komið að húðunin á gúmmíinu slitnar af við notkun. Reykjavíkurborg hefur gert kröfur á hendur framleiðanda vallarins um bætur vegna þessa. Þá með það fyrir augum að framleiðandinn taki á sig kostnað við gúmmískipti. Í völlinn hefur verið bætt samskonar grænu húðuðu SBR gúmmíkurli og notað var í upphafi. Það svarta gúmmí sem nú er í vellinum er einungis gúmmí sem græna húðunin er farin af.
 
Gervigrasvellir Vals og Þróttar
 
Frá því að gervigrasvöllurinn í Úlfarsárdal var byggður hafa tveir vellir borgarinnar verið endurgerðir. Um er að ræða nýjan gervigrasvöll á svæði Knattspyrnufélagsins Vals árið 2015 og gervigrasvöll Þróttar í Laugardal einnig árið 2015. Í þá velli var sett grátt gúmmí (REPDM) sem talið er mun heppilegra gúmmí fyrir gervigrasvelli og er í dag notað víða í nágrannalöndum okkar. Einnig er nýtt gervigras í Egilshöll og var þar einnig sett grátt gúmmí. 
 
Gervigrasvöllur KR
 
Völlurinn var byggður 2003-4 og endurnýjaður 2007. Í vellinum er svart SBR gúmmíkurl. Áætlað er að endurnýja völlinn 2017.
 
Gervigrasvöllur Fylkis
 
Völlurinn var byggður 2003-4 og endurnýjaður 2007. Í vellinum er svart SBR gúmmíkurl. Áætlað er að endurnýja völlinn 2017.
 
Gervigrasvöllur Víkings
 
Völlurinn var byggður árið 2009. Völlurinn er slitinn og komið hafa fram gallar í honum og verður hann endurnýjaður sumarið 2016.
 
Gervigrasvöllur Fram í Safamýri
 
Völlurinn var byggður 2003-4 og endurnýjaður 2007. Í vellinum er svart SBR gúmmíkurl. Ekki stendur til að endurnýja völlin heldur leggja hann af þegar Fram flytur í Úlfarsárdal. Flytji félagið ekki í Úlfarsárdal verður sú ákvörðun endurskoðuð.
 
Gervigrasvöllur Leiknis í Breiðholti
 
Völlurinn var byggður 1994 og endurnýjaður 2004. Árið 2009 var svörtu SBR gúmmíi skipt út með nýju gráu gúmmíi (REPDM). Áætlað er að endurnýja völlinn 2018.
 
Gervigrasvöllur ÍR í Breiðholti.
 
Völlurinn var byggður 2007 og er með SBR gúmmíkurl. Áætlað er að endurnýja völlinn 2019.