Gert ráð fyrir uppbyggingu tæplega 60 þúsund íbúða á höfuðborgarsvæðinu
Framkvæmdir Skipulagsmál
Gert er ráð fyrir uppbyggingu nær 60 þúsund íbúða í gildandi aðalskipulagsáætlunum fyrir höfuðborgarsvæðið, en til samanburðar er núverandi fjöldi fullbúinna íbúða tæpar 98 þúsund. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins.
Lykilatriði í framfylgd svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 er gerð fjögurra ára þróunaráætlana. Þeim er ætlað að samræma áætlanir sveitarfélaganna í húsnæðis- og samgöngumálum og miðla upplýsingum um uppbyggingaráform út í samfélagið. Nýja þróunaráætlunin er sú þriðja sem unnin er á grunni Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins: Höfuðborgarsvæðið 2040 og í henni kemur meðal annars fram að rúmar skipulagsheimildir eru fyrir hendi til að auka uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir liggur staðfest deiliskipulag fyrir rúmlega 12 þúsund íbúðir og deiliskipulag fyrir rúmlega 11 þúsund íbúðir til viðbótar er í vinnslu. Því er rými til að byggja meira en gert hefur verið að meðaltali síðustu ár, ef horft er til skipulagsheimilda. Mögulegt væri að hefja uppbyggingu á tæplega 3.400 íbúðum að meðaltali á ári næstu fjögur árin, að því gefnu að fjármögnun, mannafli og tækjakostur standi til boða.
Gætu hýst allt að 142 þúsund íbúa til viðbótar við núverandi íbúafjölda
Gert er ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um á bilinu 6-16 þúsund fram til ársins 2027. Áætlanir sveitarfélaga um íbúðauppbyggingu gera sem fyrr segir ráð fyrir rúmlega 12 þúsund nýjum íbúðum sem gætu rúmað allt að 30 þúsund íbúa, miðað við núverandi meðaltal íbúa í íbúð, en að meðaltali búa nú 2,46 manns í hverri íbúð höfuðborgarsvæðisins. Ætla má að heildarfjöldi skipulagsheimilda í aðalskipulagi sveitarfélaganna geti hýst allt að 142 þúsund manns til viðbótar við núverandi íbúafjölda en gert er ráð fyrir uppbyggingu 57.700 íbúða. Ekki er tekið tillit til þeirra íbúða sem þegar eru í byggingu. Tímalengd aðalskipulagsáætlana er mislöng en lengst ná þær hjá Reykjavík og Kópavogi, eða til ársins 2040.
Verkefni næstu ára að stækka samgöngu- og þróunarása
Búið er að úthluta 70% byggingarréttar íbúða þar sem deiliskipulag hefur verið samþykkt, sem samsvarar um 8.500 íbúðum. Af þeim 12 þúsund íbúðum sem deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir, eru tæplega 6.300 á lóðum sem teljast byggingarhæfar og gatnagerð lokið. Áætlun um óhagnaðardrifna húsnæðisuppbyggingu gerir ráð fyrir að 250-450 fullbyggðar íbúðir komi á markað á höfuðborgarsvæðinu á ári á tímabilinu 2024-2027.
Öll fyrirliggjandi uppbygging á sér stað innan gildandi vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins og af áætlaðri uppbyggingu er 71% innan áhrifasvæðis Borgarlínu á samgöngu- og þróunarásum eins og þeir eru skilgreindir í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. 54% framtíðarsvæða íbúðauppbyggingar eru innan áhrifasvæðis samgöngu- og þróunarása og er verkefni næstu ára að stækka þá þannig að þeir taki til stærri hluta framtíðarsvæðanna.
- Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2024.
- Tölulegar upplýsingar ná ekki til húsnæðis sem þegar er í byggingu, en þær upplýsingar má finna á vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
- Helstu tölur þróunaráætlunar eru settar fram á aðgengilegan máta í nýrri vefsjá.