Nýtt hús leikskólans Miðborgar var tekið í notkun í vikunni. Húsið nefnist Vörðuborg og stendur við Barónsstíg hjá Vörðuskóla.
Von á 20 börnum í aðlögun
Fyrsti hópurinn telur um þrjátíu börn og kemur úr öðru húsi Miðborgar, Barónsborg þar sem munu standa yfir nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir næstu átta vikurnar. Aðlögun nýrra barna hefst svo mánudaginn 21. október og munu alls tuttugu ný börn bætast við eftir því sem aðlögun vindur fram. Næstu skref í inntöku nýrra barna og aðlögun ræðst af því hvernig gengur að ráða starfsfólk inn á nýjar deildir. Þrjár deildir af fimm hafa verið teknar í notkun og vonandi verður hægt að opna þá fjórðu innan skamms.
Líst vel á nýja húsnæðið
Tinna Sigurðardóttir, leikskólastjóri segir sér lítast vel á húsnæðið og aðstöðuna, húsið sé rúmgott og þar eigi eftir að fara vel um bæði börn og starfsfólk. Tinna og Ösp Jónsdóttir sem einnig starfar sem leikskólastjóri í leikskólanum hafa ýmsar hugmyndir um skemmtilega hluti sem þær ætla að fá til viðbótar til að gera sólríka lóðina enn skemmtilegri, eins og aðstöðu þar sem hægt er að drullumalla og leika með vatn.