Fyrsta Svansvottaða húsið á vegum Reykjavíkurborgar var afhent formlega í dag. Um er að ræða íbúðakjarna við Hagasel 23 og eru Félagsbústaðir leyfishafinn. Ekki er aðeins um að ræða fyrstu Svansvottuðu byggingu borgarinnar, heldur fyrsta verkefnið þar sem opinber aðili er leyfishafi. Hildur Ýr Ottósdóttir og Hjördís Sóley Sigurðardóttir hjá Yddu arkitektum sáu um hönnun hússins.
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og er meginmarkmið hans að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Á Íslandi er Umhverfisstofnun umsjónaraðili Svansvottunarinnar og vinnur náið með skrifstofum Svansins á öllum Norðurlöndunum.
Svansvottun Hagasels 23 tryggir fyrst og fremst að húsið sé vistvænt, gott fyrir heilsuna og umhverfið og eiturefni séu ekki notuð við byggingu þess. Allt í byggingunni sem og byggingaraðferðir eru svansvottaðar. Eru til að mynda gerðar nákvæmari kröfur um raka á meðan á byggingartíma stendur auk þess sem vatnsnotkun og efnisúrgangi er haldið í lágmarki.
Hagasel 23 stendur á rólegum stað innst í botnlanga.
Þróun í takt við grænar áherslur
Húsnæðismál eru eitt mikilvægasta verkefni samtímans en mikil og nauðsynleg uppbygging íbúðarhúsnæðis skilur eftir sig djúpt kolefnisfótspor. Þörf er á nýjum grænum hugmyndum og lausnum og því stendur Reykjavíkurborg fyrir þróunarverkefnum sem hluta af Græna planinu. Svansvottunin er mjög í takt við Græna planið og verður haldið áfram á sömu braut. Þannig stendur til dæmis til að nota leiðir eins og lífsferilsgreiningu við hönnun húsa, en það er aðferðarfræði við að skoða umhverfisáhrif byggingarefnis á öllum stigum byggingar, og líftímakostnaðargreiningu, sem er greining á heildarkostnaði við byggingu og rekstur frá upphafi til enda. Þá má nefna að leikskólar í endurnýjunarferli og allar nýbyggingar Reykjavíkurborgar verða Svansvottaðar. Auk þess eru byggingar í Úlfarsárdal í Svansvottunar/BREAM- vottunarferli, ásamt Sundhöllinni og leikskólanum Brákarborg.
Hagasel er sjö íbúða hús fyrir fatlað fólk auk aðstöðu vegna þjónustu við íbúana. Húsið er á tveimur hæðum og stendur á rólegum stað innst í botnlanga í Hagaselinu. Fallegar gönguleiðir liggja að tjörn og opnu, grónu svæði. Húsið er timburhús og áferðin náttúruleg. Á efri hæðinni eru litlar svalir og lítil verönd framan við íbúðir á neðri hæð. Garðurinn er að öðru leyti sameiginlegur og gert er ráð fyrir að þar sé hægt að rækta grænmeti.