Frumflutningur Celebs á lagi Barnamenningarhátíðar 2024

Celebs flytja lag Barnamenningarhátíðar 2024 í Hlíðaskóla
Celebs flytja lag Barnamenningarhátíðar 2024 í Hlíðaskóla

Mikið fjör var á sal Hlíðaskóla í dag þegar hljómsveitin Celebs frumflutti lag Barnamenningarhátíðar í ár Spyrja eftir þér. 

Texti lagsins byggir á hugmyndum reykvískra barna um lýðræði

Þema Barnamenningarhátíðar í ár er lýðræði og unnu fjórðu bekkingar í Reykjavík lýðræðisverkefni, en í ár eru 80 ár frá því að Ísland varð lýðveldi. Lagið er samið af hljómsveitinni Celebs, sem er skipuð systkinum frá Suðureyri, þeim Valgeiri Skorra, Hrafnkeli Huga og Kötlu Vigdísi, og textinn er byggður á svörum barnanna. Systkinin þrjú eru þekkt fyrir skrautlega sviðsframkomu, eru algjörir húmoristar og brenna fyrir barnamenningu. 

Sungið og dansað í Hlíðaskóla

Þau sögðu samstarfið með börnunum hafa verið rosalega skemmtilegt. 

„Það er svo mikil orka í börnunum og við getum ekki beðið eftir því að stíga á svið í Hörpu og flytja lagið okkar.“

Hljómsveitin Celebs

Vilja banna stríð og ofbeldi, hætta að selja tóbak og fleiri ferðir til Tene

Nemendur Hlíðaskóla afhentu Einari Þorsteinssyni borgarstjóra bréf sem fjórðu bekkingar í Reykjavík skrifuðu sérstaklega til hans þar sem þau lýsa skoðunum sínum á samfélaginu og segja frá hverju þau vilja breyta.

Nemendur í Hlíðaskóla afhenda borgarstjóra óskir barna í 4. bekk í Reykjavík

Meðal þess sem fram kemur í óskum barnanna er til dæmis að banna stríð og ofbeldi, kaupa mat fyrir þá sem þurfa, frið í heiminum, hætta að selja tóbak, McDonald‘s aftur á Íslandi, hraðskeiðari lyftu í skólana og fleiri ferðir til Tene, svo eitthvað sé nefnt. 

„Börnin fá tækifæri til að segja sína skoðun og þeirra óskir skipta okkur máli” sagði borgarstjóri þegar hann tók við bréfunum sem telja vel á annað hundrað.  „Framundan er þeirra barnamenningarhátíð þar sem haldið er upp á þeirra menningu og öll dagskrá miðuð að börnunum í borginni. Þetta verður sannkölluð veisla í fimm daga,“ sagði Einar. 

Barnamenningarhátíð – fjölbreytt dagskrá og frítt inn

Barnamenningarhátíð verður haldin dagana 23.–28. apríl næstkomandi. Celebs munu flytja lagið Spyrja eftir þér fyrir fullum sal barna á opnun Barnamenningarhátíðar í Eldborgarsal Hörpu þann 23. apríl næstkomandi. Vettvangur hátíðarinnar er borgin öll og verða fjölbreyttir viðburðir á boðstólum fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Frítt er inn á alla viðburði.