Frístundastefna samþykkt einróma í borgarstjórn | Reykjavíkurborg

Frístundastefna samþykkt einróma í borgarstjórn

þriðjudagur, 3. október 2017

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag fyrstu heildstæðu stefnuna um frístundaþjónustu fyrir almenning, með áherslu á börn og unglinga.  Áhersla er lögð á jafnan aðgang að fjölbreyttu og skapandi frístundastarfi, virkni og félagslega velferð. 

  • Sumarfrístund í Gufunesbæ
    Sumarfrístund í Gufunesbæ

Frístundastefnan er í samræmi við samstarfssáttmála meirihlutans og er hún afrakstur af starfi stýrihóps sem skipaður var borgarfulltrúunum Skúla Helgasyni, Mörtu Guðjónsdóttur og Sóleyju Tómasdóttur sem leiddi vinnuna fyrsta árið. Starfsmaður hópsins var Sigrún Sveinbjörnsdóttir. Hópurinn fékk til liðs við sig ýmsa sérfræðinga frá fagsviðum borgarinnar og leitað var eftir víðtæku samráði við börn og unglinga um áherslur. 

Leiðarljós stefnunnar um frístundaþjónustu er að boðið verði upp á fjölbreytta og heilsueflandi frístundaþjónustu í borginni sem hvetur til virkrar þátttöku, sköpunar og betra samfélags.

Boðið verði upp á skemmtilega og þroskandi frístundaþjónusta sem stuðli að félagslegri velferð og sé farvegur óformlegrar menntunar, menningar, uppeldis og lýðræðislegrar þátttöku.

Frístundaþjónustan á jafnframt að miða að því að efla félagsauð í hverfunum með því að stuðla að þátttöku almennings og samstarfi allra hagsmunaaðila.

Í frístundastarfinu skal stefnt að því að efla sjálfsmynd barna og unglinga og þjálfa upp nýja færni í samræmi við áhugasvið hvers og eins. Frístundastarf verði án aðgreiningar. Sérstaklega verður hugað að því að virkja til þátttöku einstaklinga sem þurfa hvatningu og stuðning vegna félagslegra aðstæðna eða fötlunar.

Stefnan skiptist í kafla sem ávarpa frístundaþjónustu við borgarbúa á öllum aldri, frá leikskólabörnum til eldri borgara með áherslu á börn og unglinga. Stýrihópurinn leggur fram ýmsar tillögur um aðgerðir og dregur sérstaklega fram 24 forgangsaðgerðir sem fela í sér fimm megináherslur. Yfirskrift þeirra dregur saman meginatriðin í leiðarljósi frístundastefnunnar:

  • fjölbreytt og skemmtilegt
  • virk þátttaka
  • jöfnuður
  • forvarnir
  • lýðheilsa - fagmennska

Sjá frístundastefnuna í heild sinni.