Framlengja tímabundið samning um samræmda móttöku flóttafólks

Yfirlitsmynd yfir Reykjavík

Borgarráð samþykkti í gær að framlengja tímabundið þjónustusamning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks. Samningurinn er aðeins gerður til sex mánaða nú, þar sem hann mætir ekki fyllilega þörfum sveitarfélaganna og unnið er að stefnumótun í málaflokknum hjá ríkinu.

Markmið samninga um samræmda móttöku er að tryggja einstaklingum sem fengið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum samfellda og jafna þjónustu, óháð því í hvaða sveitarfélagi það býr. Samningur Reykjavíkurborgar kveður á um að 1500 flóttamenn fái þjónustu í borginni í senn. Taka á mið af einstaklingsbundnum þörfum hvers og eins og er þjónustan í formi stuðnings og ráðgjafar.

Hjá Reykjavíkurborg er mikil þekking á móttöku flóttafólks enda hefur borgin lengi tekið þátt í móttöku flóttafólks. Þar að auki veitir Reykjavíkurborg umsækjendum um alþjóðlega vernd þjónustu, meðan umsókn þeirra er til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Starfshópur skoðar möguleika á úrbótum samningsins

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið greiðir allan kostnað vegna samningsins. Nokkrir annmarkar hafa verið sniðnir af í framlengdum samningi. Kröfulýsing sem honum fylgir hefur verið einfölduð og einnig hefur kostnaðarlíkan verið einfaldað. Þá er búið að skýra frekar ábyrgð og hlutverk hvers samningsaðila. Sveitarfélögin telja þó þörf á frekari úrbótum og eru vonir því bundnar við vinnu starfshóps sem hefur verið skipaður með fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem taka þátt í samræmdri móttöku flóttafólks og þeirra ráðuneyta sem koma að málaflokknum. Hópurinn mun skoða annmarka gildandi samnings en sveitarfélög hafa meðal annars bent á að umsýsla í kringum hann sé of flókin og hann taki ekki nægilegt tillit til kostnaðar vegna fatlaðra einstaklinga. Þá sé sú krafa íþyngjandi að sveitarfélög útvegi húsnæði eins og kostur og að lokum sé ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna skólagöngu barna í honum.