Framkvæmdir við göngu- og hjólastíg við Hálsabraut

Framkvæmdir

Hálsabraut

Framkvæmdir við nýjan göngu- og hjólastíg við Hálsabraut eru að hefjast. Verkefnið er unnið í samstarfi Reykjavíkurborgar og Veitna. 

Veitur munu leggja nýja hitaveitulögn, bakrás, og gengið verður frá yfirborði með nýrri göngu- og hjólaleið sem tengir betur Bæjarháls og Vesturlandsveg fyrir gangandi og hjólandi. 

Hitaveitulögnin er mikilvægur hluti af betri auðlindanýtingu og umhverfisvænum lausnum Veitna, þar sem heita vatnið er nýtt aftur í kerfinu eftir húshitun í stað þess að renna um fráveitulagnir út í sjó. 

Markmiðið er að styrkja göngu og hjólatengingu um þennan hverfahluta, þar sem að mestu eru vinnustaðir. Leiðin er mikilvæg til að tryggja betur öryggi þeirra sem fara um hverfið gangandi eða á hjóli þar sem engin slík hefur verið við austurhlið Hálsabrautar.

Mikilvæg umferðaröryggisaðgerð

Hálsabraut er umferðarþyngsta gatan í þessum hverfahluta og því mun göngu- og hjólaleið við hana auðvelda til muna gangandi og hjólandi vegfarendum að ferðast þar um á öruggari hátt. Vegna þess að um iðnaðarhverfi er að ræða er mikil umferð stórra ökutækja um þessa götu sem gerir hana hættulega fyrir gangandi og hjólandi. 

Önnur framkvæmd göngu og hjólaleiðar er á döfinni í þessu hverfi um Bitruháls, Krókháls og Dragháls, sem mun tengja hverfið enn betur við göngu- og hjólaleiðir. Þessi framkvæmd kemur þeim notendum strætó vel sem þurfa að nýta sér þær leiðir sem liggja um þetta hverfi.