Framkvæmdir hefjast við grenndarstöð í Vesturbæ

Framkvæmdir Sorphirða

Hér má sjá sambærilega djúpgáma á grenndarstöð við Freyjugötu.
Djúpgámar við Freyjugötu/Óðinsgötu.

Framkvæmdir hefjast á næstu dögum við nýja grenndarstöð sem staðsett verður við gatnamót Hrannarstígs og Öldugötu. Um er að ræða djúpgámastöð sem hentar vel í umhverfi eins og þarna er. Verið að svara ákalli íbúa hverfisins um djúpgáma á grenndarstöð en jafnframt er þetta fyrsta grenndarstöðin í gamla Vesturbænum.

Enn fremur fer fram lagnavinna, yfirborð verður hellulagt og götukanti breytt til að skapa aðlaðandi og aðgengilegt umhverfi. Til að það gangi upp verður samhliða framkvæmdunum fækkað bílastæðum um fimm við Hrannarstíg og átta við Öldugötu.

Eftir að þessi stöð bætist við verða grenndarstöðvar í Reykjavík orðnar 58 talsins.

Áætlaður kostnaður við verkið er 31 milljón króna og er áætlað að framkvæmdum ljúki í nóvember.