Framkvæmdir hefjast á Laugavegi við Hlemm

Framkvæmdir Samgöngur

Tölvuteiknuð mynd af 1. áfanga við Hlemm.

Verktaki mun hefjast handa í september við fyrsta áfangann við að umbreyta Hlemmsvæðinu í mannvæna og lífvæna borgarbyggð. Kaflinn sem um ræðir liggur frá Mathöllinni á Hlemmi eða Laugavegi 105 við Hlemm og að Snorrabraut.

Það sem er á döfinni núna á Laugavegi – er að umbreyta svæðinu með gróðri, setsvæðum, hjólastæði og óformlegum leikrýmum. Núverandi fráveitulögn verður endurnýjuð með tvöföldu kerfi regnvatns- og skolps. Fyrirliggjandi heimæðar og niðurföll verða tengd nýja kerfinu auk nýrra svelgja í regnbeðum. Hluti hitaveitulagna í götustæði verða endurnýjaðar.

Stálprófíll sem rís og hnígur er leiðandi þáttur á þessum kafla en í honum er einnig falin óbein lýsing á völdum svæðum og afmarkar hann þjónustuleiðir í göturýminu. Yfirborð er myndað með náttúrusteini, en leiðin þjónar einnig hlutverki blágrænna ofanvatnslausna. Sólarmegin á Laugaveginum er gert ráð fyrir að veitingastaðir geti vaxið út í göngurýmið. (Hönnun: Dagný Land Design og MandaWorks).

Verktaki og vinnutími

Verktakinn er Alma Verk og verður svæðinu lokað fyrir bílaumferð í september. Unnið verður frá 8-18 á virkum dögum og frá 8-16 á laugardögum. Ekki verður unnið á sunnudögum. Reykjavíkurborg og Veitur hafa umsjón með verkinu. Gætt verður að því að aðgengi gangandi vegfarenda verði gott og aðgengi í fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. 

Áætluð verklok á hluta af  þessum áfanga sem snýst um lagnir og yfirborð eru um næstu áramót. Fyrrnefndur stálprófíll verður settur á eftir að því lýkur.  

Frekari upplýsingar https://reykjavik.is/hlemmur