Förum eftir reglum og njótum þess að vera örugg á göngugötunum

Samgöngur Umhverfi

""

Göngugötum hefur fjölgað í miðborg Reykjavíkur og hafa þær notið sívaxandi vinsælda enda skapa þær góðar aðstæður fyrir blómlegt mannlíf og verslun. Mikilvægt er að fara eftir þeim reglum sem gilda á göngugötum til að allir geti notið sín á þessum skemmtilegu svæðum.

Ljósmyndir/Juliette Rowland

Hvernig eru reglurnar?

  • Gangandi vegfarendur hafa algjöran forgang á göngugötum.
  • Umferð bíla er ekki leyfð á göngugötum og óheimilt er að leggja á þeim. Sjá þó undantekningar að neðan.
  • Ferðaþjónusta fatlaðra og handhafar stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða mega aka göngugötur.
  • Handhafar stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða mega leggja í sérmerkt stæði ætluð hreyfihömluðum.
  • Íbúar og rekstraraðilar sem eru með einkabílastæði á baklóð mega aka til og frá stæðinu. Þeir geta fengið merki hjá borginni til að setja í framrúðu bílsins.
  • Mikilvægt er að þeir sem hafa heimild til að aka göngugötu aki ekki hraðar en á gönguhraða og sýni ítrustu varúð og tillitssemi.
  • Vörulosunartími er alla virka daga á milli klukkan 7 og 11 en milli 8 og 11 um helgar.

Það eru sem sagt aðeins þessir ákveðnu aðilar sem mega aka göngugötur, aðrir mega ekki aka þær. Á göngugötum er að jafnaði meira rými fyrir þá sem afgreiða vörur til að athafna sig en mikilvægt er að vörudreifingaraðilar virði tímamörk sem gefin eru.

Athygli þessara aðila er vakin á athygli því að í umferðarlögum stendur að það megi aldrei aka hraðar á göngugötu en sem nemur 10 km/klst. Þar segir líka að ökumanni beri að sýna gangandi vegfaranda sérstaka tillitssemi og víkja fyrir honum. Hjólreiðamaður á göngugötu á líka að sýna sömu tillitsemi og ekki hjóla hraðar en sem nemur eðlilegum gönguhraða.

Sambúðin á göngugötum gengur best ef allir hafa sannan jólaanda í huga og sýna öðru fólki virðingu og tillitsemi til að tryggja öryggi allra vegfaranda.

Af hverju að hafa göngugötur?

Göngugötur eru sá áfangastaður borga sem flestir heimsækja til þess að dvelja á. Þær efla samskipti, verslun og auka lífsgæði borgarbúa. Göngugötur eru eðlilegur áfangi í þróun borga og hefur reynslan sýnt að íbúar borgarinnar vilja göngugötur í miðborginni. Þar er mannlífið, þjónustan, stemningin og allt getur gerst. Við göngugötur þrífst jafnan blómleg verslun og veitingastaðaflóra og eykur það á mannlíf yfir allan sólarhringinn. Verslanir við göngugötur hafa alla jafna persónulegt yfirbragð og fjölbreytni þrífst vel við göngugötur.

Göngugötur breytast eftir árstíðum og hefur hver árstíð eitthvað nýtt að bjóða og þess vegna er gaman að heimsækja þær á mismunandi tímum. Jólin eru sérstaklega skemmtilegur tími í miðborginni þar sem borgin er fallega skreytt og jólaandinn er allsráðandi í rólegu umhverfi göngugatna.

Göngugötur finnast í nánast hverjum dönskum, norskum og sænskum bæ óháð stærð, staðsetningu eða veðurfari. Hvorki regn, kuldi, né vindur hafa hamlað þessari þróun.

Gætum að sóttvörnum og njótum aðventunnar

Fólk er beðið um að virða gildandi sóttvarnarreglur á göngugötum sem og annars staðar, halda tveggja metra fjarlægð, sýna tillitsemi og vera með grímu ef það reynist erfitt að halda fjarlægð. Umfram allt er fólk beðið um að fara varlega en njóta aðventunnar í miðborginni og þeirrar þjónustu sem þar er í boði. Einnig er fólk bent á að skipuleggja tíma sinn vel og dreifa komum sínum á lengri opnunartíma eftir bestu getu. Lengri opnunartími verslana hefst í dag 17. desember og er í gildi fram á Þorláksmessu.

Hvar er best að leggja?

Þeir sem koma á bíl til að heimsækja göngugötur geta notað bílastæðahús miðborgarinnar en frá þeim er stuttur spölur að göngugötum. Stjörnuport, Vitatorg og Traðarkot eru næst Laugavegi, en í Kvosinni eru bílastæðahús í Ráðhúsinu, Hafnartorgi, Kolaportinu og á Vesturgötu. Í flestum bílastæðahúsunum eru stæði fyrir hreyfihamlaða en bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru einnig við jaðra göngugatna.

Tenglar:

Upplýsingar um bílastæðahús og verð á vef Bílastæðasjóðs.

Upplýsingar um bílastæðahúsið undir Hafnartorgi.

Skoða hvernig borga má fyrir bílastæði með öppum í símanum.

Kort yfir göngugötur og bílastæði hreyfihamlaðra.

Skoða umferðarlög en 10. grein þeirra gildir um göngugötur.