Foreldrar ánægðir með þjónustu leikskóla og frístundaheimila

Skóli og frístund

""

Viðhorfskannanir meðal foreldra barna í leikskólum, frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum borgarinnar sýna mikla ánægju með þjónustuna.

Mikill meirihluti telur barninu líða vel í leikskólanum

Tæplega 97% foreldra leikskólabarna eru mjög eða frekar sammála þeirri  fullyrðingu að ; barninu þeirra líður vel í leikskólanum frá tæpum 96% í síðustu könnun sem gerð var á árinu 2019.

Þá eru 95,5% foreldra sammála því að í leikskólanum ríki notalegt og vingjarnlegt andrúmsloft, eða sama hlutfall og í fyrri könnunum.

Tæplega 93% foreldra telja viðfangsefnin í leikskólanum vera áhugaverð samanborið við 91% í síðustu könnun. Um 94% eru ánægðir með með samskipti og viðmót starfsfólks við barnið og tæp 95% sammála því að starfsfólk þekki þarfir barnanna þeirra, hvoru tveggja á pari við niðurstöður síðustu könnunar. Hlutfall þeirra foreldra sem finnst aðbúnaður í leikskólanum góður hækkaði úr 82,5% frá árinu 2019 upp í 88,6%.

Almennt eru foreldrar ánægðir með leikskóla barna sinna þegar á heildina er litið eða 94% sem er sama niðurstaða og á árinu 2019.

Viðhorfskönnunin meðal foreldra leikskólabarna var lögð fyrir í mars 2021 og var svarhlutfallið 82%.
Sjá samantekt um niðurstöður könnunarinnar. Sjá kynningarglærur. 

Vaxandi ánægja með þjónustu frístundaheimila

Ríflega 94% foreldra barna í frístundaheimilum eru mjög eða frekar sammála þeirri fullyrðingu að barninu þeirra líði vel í frístundaheimilinu frá tæpum 93% í síðustu könnun.

89% foreldra eru sammála því að börnunum þeirra finnist skemmtilegt í frístundaheimilinu frá tæplega 86% á árinu 2019 og 86% foreldra telja að viðfangsefni frístundaheimilisins séu áhugaverð miðað við 84% í síðustu könnun. Um 90% eru sammála því að starfsfólk sýni barninu umhyggju og hlýju frá 89% fyrir tveimur árum.

92% foreldra eru sammála því að þeir séu almennt ánægðir með frístundaheimilið sem er hækkun úr 90% árið 2019 og 87% árið 2017. Í ár var í fyrsta skipti spurt um stjórnun frístundaheimilsins en um 89% foreldra eru sammála því að frístundheimilinu sé vel stjórnað.

Rétt eins og í frístundaheimilinum telja 94% forelda barna í sértækum félagsmiðstöðvum að börnunum þeirra líði vel í starfinu.

Könnun á viðhorfum foreldra sem eiga börn í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum borgarinnar var lögð fyrir í febrúar og mars 2021 og var svarhlutfallið því 75,5%.

Sjá samantekt um niðurstöður könnunarinnar. Sjá kynningarglærur. 

Mikilvæg endurgjöf og þakkir til starfsfólks

Kannanir meðal foreldra eru mikilvæg endurgjöf til stjórnenda og starfsfólks og veita upplýsingar til að bæta fagstarfið í skóla- og frístundastarfi borgarinnar og eru þær að jafnaði gerðar annað hvert ár fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundastarfið. 

Skóla- og frístundaráðs fékk kynningu á niðurstöðum kannananna á fundi sínum 17. ágúst. Í bókun meirihlutans segir m.a.
- Þetta eru góðar niðurstöður á flóknum tímum og sýna vel hve starfsemi leikskólanna hefur staðist aukið álag vegna Covid. Þá er tilgreint í bókun að innleiðing frístundastefnu virðist hafa haft jákvæð áhrif á störf frístundaheimila. Starfsfólki leikskóla, frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva er þakkað kærlega fyrir vel unnin störf.