Flotinn flakkandi félagsmiðstöð hlaut viðurkenningu Barnaheilla 2024 ásamt ömmu Andreu við hátíðlega athöfn í gær, 20. nóvember. Viðurkenningin er veitt ár á þessum degi en einmitt þann dag 1989 var barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur.
Mikilvægt verkefni sem stuðlar að velferð og öryggi unglinga
Flotinn, flakkandi félagsmiðstöð er samstarfsverkefni frístundamiðstöðva í Reykjavík og sinnir vettvangsstarfi utan opnunartíma félagsmiðstöðva. Um er að ræða forvarnarstarf félagsmiðstöðvastarfsfólks þar sem unnið er með viðhorf og atferli unglinga í átt að heilbrigðum lífsstíl og virkni í samfélaginu eins og gert er í félagsmiðstöðvastarfi. Í umsögn sem fylgdi tilnefningunni segir: „Flotinn, flakkandi félagsmiðstöð er gríðarlega mikilvægt verkefni sem snýr að því að stuðla að öryggi og velferð unglinga, vinna að forvörnum og draga úr áhættuþáttum í umhverfi unglinga.“
Ferðast um borgina utan hefðbundins opnunartíma félagsmiðstöðva
Starfsfólk Flotans ferðast um borgina og kortleggur stöðuna varðandi áhættuhegðun unglinga og býr til tengsl við þá unglinga sem eru í viðkvæmri stöðu, er til staðar fyrir þá og reynir með þeim hætti að stuðla að öryggi þeirra.
Amma Andrea þekkt fyrir náungakærleik og góðmennsku
Amma Andrea er einstaklingsframtak unnið af Andreu Þórunni Björnsdóttur, sem mörgum er kunn á Akranesi og víðar fyrir náungakærleik og góðmennsku. Hún hefur í mörg ár fundið leiðir til að styðja við fjölskyldur sem eiga um sárt að binda. „Framtak Andreu er einstakt og ósérhlífið en myndi ekki ganga upp nema vegna aðkomu þeirra sem gefa söluvarning og þeirra sem kaupa hann eða styrkja starfið að öðru leyti. Því má segja að þetta góðverk ömmu Andreu sé fyrirmyndar samfélagsverkefni þar sem stórkostlegt einstaklingsframtak hennar sé öðrum hvatning til að láta gott af sér leiða,“ segir á vefsíðu Barnaheilla.