Flórunni fagnað á laugardag

Umhverfi Menning og listir

""

Vinnu við nýtt vegglistaverk sem Sara Riel málaði á Spennistöðina við Austurbæjarskóla er lokið og verður því fagnað formlega nú á laugardag kl. 15 – 17.  

Sýningin á laugardag hefst í Listamenn gallerí á Skúlagötu 42 og þaðan verður haldið upp í Austurbæjarskóla til að berja vegglistaverkið augum.

Verkið er samansett úr plöntum sem nemendur í Austurbæjarskóla (2018 – 2019) völdu sem staðgengla sína, en þeir svöruðu spurningunni „Ef þú værir planta, hvaða planta værir þú og af hverju?“ með teikningu og skýringartexta.

Verkið heitir Flóran og er hluti þessarar 250 fermetra stóru veggmyndar þakin mosa.

Auk vegglistaverksins sýnir Sara Riel í Listamönnum galleríi þrjú plöntukort sem unnin eru upp úr teikningum nemenda og þjóna þau sem plöntulykill að vegglistaverkinu. Auk þess verða til sýnis frumskissur/fyrirmyndir að veggverkinu og kveikjurnar, sem eru handgerðar bækur með myndum og textum barnanna.

Sara lýsir verki sínu sem innsetningu í borgarrýmið, þar sem staðsetning og þau kennileiti í umhverfi við það er vandlega ígrundað í samhengi við verkið sjálft. Vegglistaverkið er viðbragð við hinu ytra, umhverfinu eða samfélaginu þar sem veggurinn er staðsettur. Þetta sé vísindaleg nálgun þar sem fimm þættir eru uppfylltir: Hugmynd, rannsókn, framleiðsla, framkvæmd og framsetning.

Í nýlegum verkum Söru Riel hefur hún blandað saman þrívíðum efnivið við tvívíða málverkið. Speglar og lifandi mosi eru meðal þeirra efna sem hún notar til að ýkja þátt veðurs, birtuskilyrða og tíma í verkunum. Verkin eru í stöðugri breytingu vegna þessara þátta.

Vegglistaverkið er unnið sem hluti af íbúalýðræðisverkefninu „Hverfið mitt“ þar sem íbúar leggja inn hugmyndir og kjósa hvaða verkefni koma til framkvæmda. 

Tengt efni: