Fleira flóttafólk fær þjónustu Reykjavíkurborgar með nýjum samningi
Borgarráð samþykkti í gær að framlengja tvo samninga við ríkið sem fjalla um þjónustu við fólk á flótta. Annars vegar samning um þjónustu við flóttafólk, það er að segja þá einstaklinga sem hafa fengið stöðu sína sem flóttafólk viðurkennda af stjórnvöldum. Hins vegar samning um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd
1800 einstaklingar fá þjónustu á hverjum tíma
Nýr þjónustusamningur um samræmda móttöku flóttafólks gildir til 31. desember 2025. Hann kveður á um þjónustu við 1800 einstaklinga á hverjum tíma og fær sveitarfélagið greitt fyrir fyrstu þrjú árin sem einstaklingur er í þjónustu þess. Þetta er fjölgun um 300 einstaklinga en fyrir samningur kvað á um þjónustu við 1500 manns.
Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir mikilvægt að samningurinn hafi verið framlengdur og jafnframt að samþykkt hafi verið að fjölga einstaklingum í samningnum. „Við hjá Reykjavíkurborg höfum byggt upp mikla þekkingu á þjónustu við flóttafólk og í heildina litið hefur framkvæmd samningsins um þjónustu við hópinn gengið vel. Hins vegar hefur fjöldi flóttafólks í samræmdri móttöku farið yfir umsaminn fjölda og var á tímabili 1800. Það er því mikilvægt endurnýjaður samningur endurspegli þá stöðu, ekki síst í ljósi þess að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur tilkynnt að ekki verði greitt fyrir fleiri en samningur segir til um frá og með 18. nóvember sl.,“ segir Rannveig.
Frá árinu 2015 hafa 6.105 einstaklingar með stöðu flóttafólks verið í þjónustu velferðarsviðs. 31 starfsmaður á velferðarsviði sinnir þjónustu við hópinn en í henni felst meðal annars félagsleg ráðgjöf, gerð grunnmats og stuðningsáætlunar, sálfræðistuðningur, aðgangur að virkniúrræðum og ýmsum námskeiðum tengdum uppeldi og íslensku samfélagi. Þar að auki aðstoð við ýmislegt, svo sem húsnæðisleit, að sækja um húsnæðisbætur og húsnæðisstuðning, byggja upp heimili, skrá sig á heilsugæslu, sækja rafræn skilríki, stofna bankareikning og samskipti við aðrar stofnanir. Fleira getur komið til og þjónustan getur verið afar margvísleg þar sem ráðgjafi fólks er oft eina tenging þess við samfélagið.
Þrjú hundruð umsækjendur um alþjóðlega vernd fá þjónustu
Borgarráð samþykkti jafnframt að framlengja samning við Vinnumálastofnun um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Áfram kveður samningurinn á um þjónustu við 300 manns á hverjum tíma og er hann gerður til þriggja ára frá og með 1. janúar 2025. Helsta breytingin í nýjum samningi er að Reykjavíkurborg skuldbindur sig nú til að útvega húsnæði fyrir 150 einstaklinga af þeim 300 sem samningurinn nær til en á móti skuldbindur Vinnumálstofnun sig til að útvega hinum 150 húsnæði. Í fyrri samningi var það skylda Reykjavíkurborgar að finna þeim öllum húsnæði.
Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd fer fram hjá teymi umsækjenda um alþjóðlega vernd en innan þess starfa fjórtán manns. Meðal þjónustu sem veitt er er félagsleg ráðgjöf, gerð stuðningsáætlunar, virkniúrræði, námskeið og hópastarf og ýmis aðstoð, svo sem við að skrá börn í skóla, leikskóla og frístund og fleira eftir þörfum. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá jafnframt sundkort og líkamsræktarkort.