Fjölskyldusamvera, vímuefnaleysi og skipulagt starf í forgrunni á Forvarnardeginum
Heilsa Skóli og frístund
Verndandi þættir, vellíðan og kærleikur í lífi barna og ungmenna eru í forgrunni á Forvarnardeginum, sem haldinn er í nítjánda sinn í dag. Ýmislegt áhugavert kom fram á málþingi í Ingunnarskóla í tilefni dagsins og að því loknu heimsótti Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, Háteigsskóla og hitti þar ungmenni í níunda bekk sem unnu að verkefnum Forvarnardagsins.
Forvarnardagurinn var fyrst haldinn árið 2006 og beinist hann að ungmennum í níunda bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Um er að ræða hópavinnu í skólunum sem snýst um þrjá þætti; samveru með foreldrum, þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi og að leyfa heilanum að þroskast án vímuefna, en rannsóknir sýna að þessir þættir eru verndandi gagnvart áhættuhegðun. Nemendur nýta efnið til umræðu í hópavinnu, skrá hugmyndir um hvað veitir þeim vellíðan og hefur áhrif á góða heilsuhegðun, um samskipti og samveru með foreldrum og fjölskyldu, áhrif félagsþrýstings og fleira. Einnig ræða nemendur í framhaldsskólum um þá ákvörðun að drekka ekki eða seinka því að byrja að drekka áfengi og hvaða þættir hafa áhrif á þá ákvörðun.
Forvarnardagurinn er samvinnuverkefni embættis forseta Íslands, Embætti landlæknis, Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Skátanna, ungmennafélaga Íslands, Rannsóknar og greiningar, Planet Youth, Samféss og Heimilis og skóla, auk samstarfs við félagasamtök í forvörnum. Þeir sem taka þátt í deginum geta svo skráð sig í leik sem er mismunandi á milli ára og er vinningshöfum boðið til Bessastaða til að taka á móti viðurkenningu. Sveitarfélög eru hvött til að setja forvarnir á dagskrá í októbermánuði og mörg hafa undanfarin ár skipulagt forvarnardagskrá í mánuðinum í samstarfi við ýmsa aðila, félög og stofnanir. Einnig er mikil hvatning til foreldra að taka þátt og endurvekja gott foreldrasamstarf en þar geta skólar, félagsmiðstöðvar og sveitarfélög veitt góðan stuðning.
Samstarfsaðilar Forvarnardagsins og ungmenni úr Ingunnarskóla.
Samfélagsmiðlar tóbak nútímans
Á málþingi í Ingunnarskóla í morgun sagði fundarstjórinn Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs Embættis landlæknis, að á Forvarnardeginum væri lögð áhersla á það jákvæða frekar en það neikvæða. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, var fyrst á mælendaskrá. Hún lagði mikla áherslu á hætturnar sem fylgdu mikilli símanotkun nútímans og hrósaði Ingunnarskóla fyrir að vera símalaus skóli. „Samfélagsmiðlar eru tóbak nútímans,“ sagði hún og ræddi um neikvæð áhrif þeirra á líðan ungmenna og fólks almennt. Hún hvatti ungmenni til að leggja frá sér símana, búa sér til rými og taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Þá minnti hún á mikilvægi þess að engin yrðu útundan og að öll gætum við verið riddarar kærleikans og boðið öðrum að vera með. Hegðun væri smitandi og framkoma okkar hefði ávallt áhrif.
„Samfélagsmiðlar eru tóbak nútímans“
Alma D. Möller, landlæknir, talaði um fyrrnefnda verndandi þætti en minnti einnig á að það væri gott fyrir heilsuna að vera góður við aðra, láta gott af sér leiða og hjálpa þeim sem stæðu höllum fæti. Við þyrftum að líta inn á við, þykja vænt um okkur sjálf og sinna líkama og sál. Þá ræddi hún um mikilvægi félagslegra tengsla, svefns, hreyfingar og hollrar fæðu auk þess sem hún minnti ungmenni á að vara sig á orkudrykkjum, sem meðal annars hefðu neikvæð áhrif á svefn. Hún sagði hraða samfélagsins of mikinn og beindi því til foreldra og forsjáraðila að hægja ferðina, sinna verndandi þáttum og velta fyrir sér, án símtækja, hvað veitti raunverulega hamingju og vellíðan.
Nemendur úr 3. bekk í Ingunnarskóla færðu Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, listaverk eftir sig.
Fjölskyldusamvera og þátttaka í skipulögðu starfi besta forvörnin
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, sagði kynslóðina sem er að alast upp afar efnilega, sem sæist meðal annars á tölum um forvarnir. Tölur um minnkaða neyslu vímugjafa hjá íslenskum ungmennum hefðu vakið heimsathygli og að dagurinn snerist um að fagna því sem vel hefði gengið en einnig að huga að verkefnum samtímans. Hann fagnaði ákvörðun margra skóla í borginni sem hefðu ákveðið, eftir lýðræðislega umræðu, að gerast símalausir og minnti á mikilvægi þess að fjölskyldur verðu tíma saman, helst sem mestum. „Að hanga saman og byggja upp traust,“ sagði hann. „Þetta skiptir máli.“
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri hjá Planet Youth, rýndi í gögn og kom meðal annars inn á mikilvægi þess að foreldrar settu börnum og ungmennum reglur. Hún minnti ungmenni á að sýna hvert öðru umhyggju og hlýju og lagði, rétt eins og Dagur, áherslu á að samverustundir fjölskyldna þyrftu ekki að vera flóknar.
Loks töluðu tveir fulltrúar úr ungmennaráði UMFÍ, þau Ernir Daði Arnbergz Sigurðsson og Karen Hulda Finnsdóttir, fyrir hönd unga fólksins. Lögðu þau, eins og aðrir framsögumenn, mesta áherslu á mikilvægi þátttöku í íþróttum og öðru skipulögðu starfi, því að þar leyndist besta forvörnin. Þá hvöttu þau ungt fólk eindregið til að taka virkan þátt í samfélaginu og láta rödd sína heyrast.
Hægt er að kynna sér verkefnið betur og nálgast upptöku af málþinginu á heimasíðu Forvarnardagsins.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, heimsótti Háteigsskóla og hitti þar ungmenni í níunda bekk sem unnu að verkefnum Forvarnardagsins.