Fjölskrúðug göngugötusvæði í miðborginni í vetur

Göngugötur Skipulagsmál

Myndin sýnir fjölskrúðugt mannlíf á laugavegi.

Sumargötur á Laugavegi milli Frakkastígs og Klapparstígs ásamt Vatnsstíg milli Laugavegs og Hverfisgötu vöktu ánægju gesta og mikið mannlíf skapaðist á svæðinu. Borgarráð hefur nú samþykkt að ofangreindar götur verði áfram tímabundnar göngugötur til 1. maí 2021. Jólastemningin er um þessar mundir að taka yfir í skreytingum og svo verður einnig í uppákomum þegar líður á veturinn.

Reykjavíkurborg heldur áfram að fegra miðborgina í vetur. Garðyrkjudeildin hefur skipt út sumarblómum fyrir haustgróður en það er liður í því að skapa síbreytilega og áhugaverða götumynd sem gaman er að upplifa. Viðburðir og uppákomur verða áfram á dagskrá í miðborginni í vetur. 

Aðventan verður því greinilega spennandi og gleðilegur tími í miðborginni. 

Almenn umferð og aðgengi

Almenn umferð og bifreiðastöður verða áfram óheimilar. Akstur vegna vöruafgreiðslu verður heimilaður milli klukkan 7 og 11 virka daga og milli klukkan 8 og 11 á laugardögum. Aðgengi íbúa/starfssemi með bílastæði inni á lóð við göturnar verður tryggt.

Allir hjálpast að við að fegra miðborgina

Fögur miðborg með gestum verður mikið gleðiefni á komandi aðventu en því fylgir auðvitað aukið álag á hreinsun og viðhald. Rekstraraðilar eru því beðnir um að leggja borginni lið við að halda umhverfinu snyrtilegu í kringum starfsemi sína, sér í lagi veitingastaðir og kaffihús.

Tímabundnar göngugötur verða merktar með viðeigandi hætti í samræmi við reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra. Tillagan hefur verið borin undir og hlotið samþykki lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Unnið verður áfram með lögreglunni að því að tryggja öryggi á göngugötum.

Deiliskipulag í auglýsingu

Á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 23. september 2020 og borgarstjórnar Reykjavíkur þann 20. október 2020 var samþykkt að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Laugaveginn sem göngugötu, 2. áfanga. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til skipulagsfulltrúa eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 11. desember 2020. 

Gert er ráð fyrir að deiliskipulagið verði afgreitt á fyrsta ársfjórðungi ársins 2021 og að það taki gildi fyrir 1. maí nk. Af þeim sökum var ákveðið að framlengja núverandi göngugötutímabil yfir deiliskipulagsferlið eða til 1. maí 2021. Ábendingar vegna göngugatna má senda á netfangið gongugotur@reykjavik.is.

Upplýsingar um leyfisumsóknir vegna afnota á borgarlandi, meðal annars vegna afnota á göngugötum.

Kort af göngusvæðinu