Fjölmenni á íbúafundum borgarstjóra í Grafarvogi og Breiðholti

Einar Þorsteinsson borgarstjóri á íbúafundi í Grafarvogi í morgun
Einar Þorsteinsson borgarstjóri á íbúafundi í Grafarvogi í morgun

Íbúafundir Einars Þorsteinssonar borgarstjóra, sem haldnir voru í Grafarvogi og Breiðholti í dag, tókust afar vel.

 Borgarstjóri fundaði fyrst í Rimaskóla í Grafarvogi og hófst fundurinn klukkan 11.00 og mættu um 90 íbúar til að taka þátt í umræðu um hverfið. Gestir fundarins áttu fyrst að telja upp kostina við hverfið sitt, því næst átti að telja upp það sem mætti bæta í hverfinu og loks spurt hvað íbúar vildu að borgarstjóri ætti að gera.

 Íbúar í Grafarvogi töldu að meðal kosta hverfisins væri nálægð við náttúruna, göngustígar, barnvænt hverfi, lágreist byggð og öflugt íþróttastarf. Úrbóta væri þörf í almenningssamgöngum í hverfinu svo og verslun auk þess sem íbúar vildu Sundabraut í göng. Grafarvogsbúar töldu að borgarstjóri ætti að setja samgöngur í forgang, huga að bættum almenningssamgöngum og efla grænu svæðin í hverfinu.

 

Einar Þorsteinsson borgarstjóri ræðir við íbúa í Breiðholti á íbúafundi í Breiðholtsskóla
Einar Þorsteinsson borgarstjóri ræðir við íbúa í Breiðholti á íbúafundi í Breiðholtsskóla

 

Í Breiðholti hófst íbúafundurinn klukkan 14.00 í Breiðholtsskóla. Hátt í áttatíu manns mættu á fundinn og var sami háttur hafður á og í Grafarvogi. Á fundinum töldu íbúar að kostir Breiðholtsins væru meðal annars græn svæði, barnvænt hverfi, Borgarbókasafnið,  Mjódd, sundlaugin, Elliðaárdalurinn og fjölbreytt göngusvæði.  Fundargestir töldu að efla þyrfti Mjóddina, bæta almenningssamgöngur, frítt í strætó fyrir börn á grunnskólaaldri, efla uppbyggingu leikskóla og huga að umferðarmálum. Óskað var eftir því að borgarstjóri beitti sér fyrir því að vernda græn svæði, styðja betur við skóla og leikskóla og bæta þjónustu við börn í hverfinu. 

Borgarstjóri þakkaði íbúum fyrir komuna á fundina. Á næstu dögum verður ákveðið í hvaða hverfum næstu fundir verða haldnir.