Fjölbreytt jóladagskrá á aðventunni í Jólaborginni
Aldrei hefur verið meira skreytt í Reykjavík fyrir hátíðarnar, en hana prýða nú yfir 500 þúsund ljósaperur og 50 kílómetrar af jólaseríum. Fjölbreytt dagskrá verður í boði í jólaborginni, við Austurvöll, á söfnum, í Elliðaárdalnum og Fjölskyldu- og húsdýragarðinum alla aðventuna og ættu öll að finna sér eitthvað skemmtilegt að gera.
Jólakötturinn er á sínum stað og nú hafa Grýla og Leppalúði bæst í hópinn í gróðurhúsinu við Lækjartorg. Oslóartréð á Austurvelli, sem á sér fastan sess í hugum borgarbúa, verður tendrað á sunnudag, og er ómissandi hluti af jólaborginni. Alltaf bætist eitthvað nýtt í jólaborgina og er fólk hvatt til að gera sér glaðan dag í borginni á aðventunni.
Jólamarkaður við Austurvöll
Austurvöllur er í hjarta jólaborgarinnar og hefur aldrei verið fallegri. Um 10 kílómetrar af ljósaseríum prýða nú gróðurinn við torgið og starfsfólk borgarinnar hefur búið til skemmtileg ljósagöng á hvorum enda þess. Einnig er búið að koma fyrir glæsilegum jólakrans þar sem tilvalið er að taka hátíðlegar myndir. Í fyrsta sinn er boðið upp á jólamarkað við Austurvöll og munu söluaðilar bjóða upp á fjölbreytt úrval af smávöru og spennandi jólavörum.
Jólamarkaðurinn opnar laugardaginn 30. nóvember klukkan 13:00 .
Sérstök dagskrá verður við opnun markaðarins á laugardag þar sem Páll Óskar mun koma fram ásamt kvennakór Háskóla Íslands, Harmonikkusystrum og Jóla-Tufti verður á staðnum. Öll velkomin!
Markaðurinn verður opinn allar helgar í desember og dagana 19. - 23. desember.
Tónlist, jólasveinar og annað fjör alla aðventuna
25 styrkjum var úthlutað úr viðburðapotti jólaborgarinnar til listafólks sem mun skemmta gestum og gangandi í miðborginni. Kórsöngur, harmonikkutónlist og lúðrablástur mun heyrast um miðborgina og sjá til þess að halda uppi jólastemningunni í miðborginni.
Jólasveinarnir verða á vappi og tröllið Tufti ásamt fjölskyldu munu bregða á leik allar helgar fram að jólum. Boðið verður upp á flesta viðburði um helgar og svo síðustu dagana fyrir jól.
Lalli töframaður verður með jólabingó fyrir öll í Tjarnarbíói sunnudaginn 1. desember klukkan 12:00. Boðið verður upp á töfrabrögð og skemmtun að hætti Lalla, piparkökur og endalausa gleði! Önnur sýning verður á ensku sama daga klukkan 13:30.
Jólavættaleikur
Jólavættaleikurinn hefst 5. desember og verða þá allar jólavættirnar búnar að koma sér fyrir á húsveggjum víðs vegar um miðborgina.
Leikurinn hefur notið vinsælda meðal gesta borgarinnar sem skemmta sér við að þræða götur og torg í leitinni að jólavættunum og fylla inn á jolavaettir.borginokkar.is. Leikurinn stendur til 19. desember og verða vegleg verðlaun dregin út úr innsendum réttum svörum.
Jólaskógur
Jólaskógur Ráðhússins verður opnaður 6. desember.
Kateřina Blahutová upplifunarhönnuður mun umbreyta Tjarnarsalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur í ævintýralegan jólaskóg. Þar verður auðvelt að komast í jólaskap enda grenilyktin allsráðandi í skrautlegu jólaumhverfi. Jólaskógurinn er opinn virka daga frá klukkan 8-18, á laugardögum frá klukkan 10–18 og á sunnudögum frá 12–18.
Skautaðu inn jólin!
Stuðsvell Nova og Orkusölunnar er á sínum stað á Ingólfstorgi eins og fyrri ár og hefur aldrei verið glæsilegra.
Það er fátt jólalegra en að skemmta sér á skautum og svo er hægt að gæða sér á heitu kakói á milli ferða.
Jólasmiðja í Listasafni Reykjavíkur
Leikum að list er yfirskrift fjölskyldudagskrár Listasafns Reykjavíkur sunnudaginn 1. desember klukkan 13:00 – 15:00.
Þar eru börn sérstaklega boðin velkomin í safnið ásamt fjölskyldu sinni til þess að skoða og upplifa myndlist í gegnum leiki og skemmtilegar umræður. Fjölbreyttur efniviður í boði undir leiðsögn kennara í huggulegu og jólalegu andrúmslofti.
Jólamarkaður Saman verður í porti Listasafns Reykjavíkur laugardaginn 30.nóvember. Hönnuðir, myndlistamenn, matgæðingar, rithöfundar, teiknarar og tónlistarfólk koma nú saman á skemmtilegum markaði þar sem ógrynni af fallegum vörum, drykkjum, matvöru og listaverkum af ýmsum toga verður til sölu fyrir jólin.
Jóladalurinn
Það verður ævintýri líkast að ganga um Jóladalinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sem verður formlega opnaður föstudaginn 29. nóvember klukkan 17:00.
Garðurinn hefur verið skreyttur með fallegum jólaljósum. Hægt verður að heimsækja dýrin og þau sem þora geta heimsótt sjálfan jólaköttinn. Kvöldopnanir verða líkt og undanfarin ár frá klukkan 17:00 - 20:00 föstudaga til sunnudaga til jóla og ókeypis aðgangur.
Á kvöldopnunum verður hægt að fara í hringekjuna, tónlist mun óma, matarvagnar verða á staðnum fyrir svanga gesti og drykkir og notalegheit í veitingaskálanum. Ratleikur fyrir alla fjölskylduna verður aðgengilegur í gegnum smáforritið Húsdýragarður – viskuslóð sem finna má i snjallverslunum snjalltækja.
Jól á Borgarbókasafni
Jóladagskrá Borgarbókasafnsins er fjölbreytt og ættu öll að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í aðdraganda jóla. Boðið verður upp á upplestur úr nýjum bókum, barnabókaball, ýmiss konar föndurstundir, samsöng og margt fleira. Jóladagatalið er á sínum stað þar sem opnaður verður einn kafli á dag og hægt að lesa að hlusta á Jólaævintýri.
Jólin á Árbæjarsafni
Bráðum koma blessuð jólin er yfirskrift jóladagskrár Árbæjarsafns sunnudagana 8. og 15. desember.
Þá daga gefst gestum tækifæri að njóta aðventunnar og upplifa jólin eins og þau voru í Reykjavík í þá gömlu góðu daga. Jólaundirbúningur er í fullum gangi í bænum og boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá. Í Árbæ má sjá heimafólk skera út laufabrauð, kemba ull og spinna garn. Kæsta skatan er komin í pottinn í Efstabæ og í Miðhúsum eru prentuð falleg jólakort. Í hesthúsinu í Garðastræti eru hjúin í óðaönn að steypa kerti úr tólg.
Jól í Heiðmörk
Jólamarkaðurinn í Elliðavatnsbæ sem Skógræktarfélag Reykjavíkur efnir til á hverju ári opnar laugardaginn 30. nóvember og þar kennir ýmissa grasa.
Þau sem vilja fella sitt eigið tré eru velkomin á Hólmsheiðina frá og með 7. desember, þar sem jólaskógur skógræktarinnar verður opinn allar helgar fram að jólum. Íbúar miðborgarinnar geta svo farið og keypt sér jólatré í gróðurhúsið á Lækjartorgi en þar verður jólatrjáasala Skógræktarfélags Reykjavíkur dagana 14. – 22. desember. Nánar um dagskrána á Heiðmörk.is
Jólastund í Elliðaárdal
Boðið verður upp á huggulega jólastund í Elliðaárdal fimmtudaginn 5. desember klukkan 16:30 – 18:30.
Lifandi jólatónlist, kynning á jólasmiðjum Hugmyndasmiða, piparkökuföndur, kakó og smákökur á veitingastað Elliðaárstöðvar. Útisvæðið verður skreytt fallegum jólaljósum og hægt verður að kíkja á útilistaverkið Uppljómun sem verður staðsett í Skrúðgarðinum.
Allar upplýsingar um dagskrá má nálgast á jolaborgin.is
Verið öll velkomin í Jólaborgina!