Nýlega fengu fimm leikskólar í Reykjavík afhenta viðurkenningur frá UNICEF fyrir að vera orðnir Réttindaleikskólar. Leikskólarnir eru Ævintýraborg Eggertsgötu, leikskólarnir Gullborg, Laugsól, Vinagerði og Ungbarnaleikskólinn Bríetartúni en að auki koma ða verkefninu skóla- og frístundasvið Reykjavíkur, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og UNICEF á Íslandi.
Ísland eina landið sem komið er með Réttindaleikskóla
Markmið verkefnisins er að innleiða ákvæði Barnasáttmálans á markvissan hátt í starfshætti leikskólanna. Samtals eru 15 Réttindaleikskólar á Íslandi og er um að ræða mikið frumkvöðlastarf. UNICEF á Íslandi er brautryðjandi á heimsvísu varðandi þessar viðurkenningar á leikskólastigi því engin önnur landsnefnd UNICEF er með sambærilegt verkefni í gangi. Fylgjast erlendar landsnefndir UNICEF vel með framvindu og árangri þessa verkefnis hér á landi.
Tilgangurinn að börnin verði áhrifavaldar
Tilgangurinn er að valdefla börnin, hlusta á hugmyndir þeirra og sjónarmið og stuðla að því að þau verði raunverulegir áhrifavaldar í leikskólanum. Um er að ræða þriggja ára verkefni sem felst í fyrsta lagi í kynningu á réttindum barna, þátttöku og áhrifamætti, í næsta skrefi felst innleiðing á ákvæðum Barnasáttmálans í daglegt starf og að lokum er svo farið í mat á innleiðingunni og hvernig hægt er að festa verkefnið í sessi í leikskólunum.
Hver leikskóli valdi sér í upphafi verkefnisins afmarkaðan þátt í starfinu til að skoða og þróa út frá réttindum barna.
Áhersluþættirnir eru eftirfarandi:
Bríetartún: Leikskólinn er nýlegur leikskóli sem opnaði í mars 2022 og því hafa verið í mótun skólanámskrá leikskólans, gildi og starfshætti. Áhersla þeirra í verkefninu er mótun hvíldarstefnu sem tekur mið af barnasáttmálanum.
Gullborg: Töluverðar endurbætur hafa átt sér stað á húsnæði leikskólans og er aðstaða elstu barnanna orðin mjög góð. Áhersla leikskólans er á að auka trú barnanna á eigin getu og efla lýðræði þeirra í matmálstímum.
Laugasól: Starf leikskólans er sem stendur á nokkrum starfsstöðvum vegna húsnæðisvanda. Starfsfólk ræddi um að það væri ríkt í menningu hluta leikskólans að öll börn fari út á sama tíma. Áhersla leikskólans er á útiveru og samstarf starfsfólks.
Vinagerði: Gengur hefur mjög vel að efla réttindi barna í daglegu starfi á eldri deildum leikskólans. Áhersla leikskólans er á útiveru og fataherbergi, þ.e. að börnin velji sjálf hverju þau klæðast fyrir útiveruna og hvenær þau fara út.
Ævintýraborg við Eggertsgötu: Leikskólinn sem opnaði vorið 2022 hefur unnið að því að móta skólanámskrá, gildi og starfshætti. Áhersla er lögð á börn sem virka þátttakendur, valdeflandi samskipti, bleyjuskipti og samverustundir. Áhersla þeirra í verkefninu er á aðlögunartímabilið.