Fertugsafmæli fagnað í garðinum á Droplaugarstöðum

Hátíð á Droplaugarstöðum í tilefni 40 ára afmælis hjúkrunarheimilisins.
Hátíð á Droplaugarstöðum í tilefni 40 ára afmælis hjúkrunarheimilisins.

Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir fagnar 40 ára afmæli í dag en það tók til starfa 30. júní 1982. Íbúar, aðstandendur, starfsfólk og aðrir velunnarar Droplaugarstaða fögnuðu tímamótunum með litríkri garðveislu í dag.

Mikil áhersla lögð á góð tengsl

Í dag búa 83 einstaklingar á Droplaugarstöðum og allir í sérbýli með baði. Mikil áhersla er lögð á að skapa heimilislegt umhverfi. Húsnæðið er á fjórum hæðum og þar er sólarhringsþjónusta og nýtur hver heimilismaður umönnunar hjúkrunarfræðings og sjúkraliða eða annars starfsfólks. Auk þess að sinna hefðbundinni þjónustu hjúkrunarheimila er þar deild fyrir einstaklinga með heilabilun og sérhæfð hjúkrunardeild fyrir einstaklinga með MND. Litið er á vægi þess að mynda tengsl og hefur hver heimilismaður tengil sem er milliliður í samskiptum við aðstandendur, starfsfólk og lækni.

Öryggi, virkni og vellíðan

Hvort sem litið er til íbúa, aðstandenda eða starfsfólks á Droplaugarstöðum er þar lögð áhersla öryggi, virkni og vellíðan. Borin er virðing fyrir íbúum heimilisins og markvisst unnið í anda þess að virða rétt íbúanna, óskir þeirra og áhugamál.

Á Droplaugarstöðum starfar samheldinn hópur starfsfólks og er mikil áhersla lögð á  góðan starfsanda. Árið 2021 voru þar að meðaltali 162 starfsmenn í 115 stöðugildum. Í hópnum eru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, félagsliðar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar og annað starfsfólk með fjölbreytta reynslu og menntun.

Þjónustan mæld með alþjóðlegum gæðastuðlum

Droplaugarstaðir er annað tveggja hjúkrunarheimila sem Reykjavíkurborg rekur en hitt er Seljahlíð. Þegar starfsemi Droplaugarstaða hófst, fyrir fjörutíu árum, voru þau dvalar- og hjúkrunarheimili. Árið 1996 var þjónustunni breytt og síðan hefur það alfarið gegnt hlutverki hjúkrunarheimilis. Droplaugarstaðir fengu ISO 9001 vottun árið 2020, fyrst hjúkrunarheimila á Íslandi, og er mikil áhersla lögð á fagleg vinnubrögð og gæði þjónustunnar.

Svipmyndir frá 40 ára afmæli Droplaugarstaða