Droplaugarstaðir fá gæðavottun ISO 9001 fyrst hjúkrunarheimila á Íslandi

Velferð

""

Í dag tóku Droplaugarstaðir á móti ISO 9001 gæðavottun í móttöku á hjúkrunarheimilinu að viðstöddum gestum m.a.  landlækni, Ölmu Möller og Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra.

Það er óhætt að fullyrða að þetta er stór fjöður í hatt hjúkrunarheimilisins, sem er það fyrsta á Íslandi til að fá þessa alþjóðlegu gæðavottun sem um leið er viðurkenning á öryggi þjónustunnar, vönduðum vinnubrögðum og gæðum.

Með því að öðlast alþjóðlega vottun samkvæmt staðlinum hefur starfsemi Droplaugarstaða sýnt fram á að þar er unnið í samræmi við alþjóðlegar kröfur um gæðastarf.

Droplaugarstaðir innleiddu gæðakerfi í samræmi við kröfur ISO 9001 og það var óháður vottunaraðili sem framkvæmdi úttekt á kerfinu og staðfesti að unnið væri í samræmi við kröfur og þá mælikvarða sem Droplaugarstaðir höfðu sett sér.

Viðurkenningin til Droplaugarstaða er veitt af BSI á Íslandi ehf. í nafni BSI Assurance (British Standards Institution) sem er óháður faggiltur vottunaraðili sem er viðurkenndur til úttekta um allan heim.

Með kerfinu eru stöðugar umbætur í starfsemi heimilisins með virkri þátttöku stjórnenda og starfsmanna í að viðhalda gæðum þjónustunnar. Árangur í starfi er mældur reglubundið og fylgst er með starfseminni frá hlutlausum þriðja aðila.

ISO 9000 staðlarnir eru fyrir öll fyrirtæki óháð því hvaða starfsemi fer þar fram en staðlarnir eru ávallt merki um gæði í stjórnun og rekstri.  Þetta er vinsælasti alþjóðastaðall fyrir rekstur fyrirtækja og stofnanna. ISO 9000 er öflugt verkfæri til að ná enn betri árangri. Það eru yfir milljón fyrirtæki og stofnanir í yfir 170 löndum sem hafa fengið slíka vottun.

Vottunin fékkst mitt í COVID-19 faraldrinum en vegna ástandsins í samfélaginu var beðið með að afhenda vottunina þar til nú.