Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2020 og 2021

Skipulagsmál

""

Viðurkenningar fyrir fallegar lóðir fjölbýlishúsa og fyrirtækja og vandaðar endurbætur á eldri húsum í Reykjavík árið 2020 og 2021 voru veittar í Höfða í dag, fimmtudaginn 4. nóvember. 

Reykjavíkurborg veitir árlega viðurkenningar fyrir fallegar stofnana- , fyrirtækja- og fjölbýlishúsalóðir og fyrir vandaðar endurbætur á eldri húsum. Um er að ræða afhendingu viðurkenninga fyrir bæði 2020 og 2021, þar sem ekki var mögulegt að halda athöfn í Höfða árið 2020 vegna samkomutakmarkana.

Viðurkenningar árið 2020 hljóta eftirfarandi þrjár lóðir/sumargötur og þrjú eldri hús:

Lóðir 2020: 

Grandavegur 42: Fjölbýlishúsalóð. Rökstuðningur: – Vönduð hönnun. Snyrtileg og vel viðhaldin lóð. Mjög gott aðgengi um lóð. Fjölbreyttir notkunarmöguleikar fyrir alla aldurshópa. Fjölbreytt og gott gróðurval á lóð sem skapar mjúka ásýnd

Hádegismóar 8: Stofnanalóð. Rökstuðningur: Snyrtileg lóð, vönduð hönnun, falleg ásýnd.

Barónessan: Sumargata. Rökstuðningur: Vel útfært svæði fyrir verslanir við sumargötur, smekkvísi eigenda skilar sér vel í hönnun og útfærslu, lífgar upp á annars frekar hefðbundna götu, falleg ásýnd

Eldri hús 2020:

Fríkirkjuvegur 11 er tvílyft timburhús í nýklassískum stíl. Það var reist á árunum 1907-1908 eftir teikningum Einars Erlendssonar fyrir athafnamanninn Thor Jenssen. Klassískar skreytingar eru áberandi að innan sem utan  og við aðalinnganginn eru jónískar súlur. Auk fjölmargra atriða sem voru nýlunda á þeim tíma sem húsið var reist, s.s. vatns- og raflagnir, stendur húsið jafnframt sem vitnisburður um framúrskarandi frágang hvað smíðar og málun varðar en fyrstu íslensku málarnir komu að málun hússins. Húsið, sem er friðlýst, hefur staðið óbreytt að mestu frá upphafi en gengist undir töluverðar viðhaldsframkvæmdir á undanförnum árum. Húsið er eitt besta dæmi Reykjavíkur um framúrskarandi varðveislu hvað byggingarstíl, byggingarefni og handverk varðar.  

Hátún 8 er byggt árið 1963 (skv. Fasteignaskrá) eftir teikningum Sigvalda Thordarson arkitekts. Hátún 8 er með þekktari fjölbýlishúsum í Reykjavík. Húsið er 7 hæðir auk efri og neðri kjallara, en þar eru alls 35 íbúðir sem allar hafa útsýni til 3 átta. Sigvaldi lagði áherslu á sérbýlið í fjölbýlinu við hönnun hússins. 

Húsið ber einkenni litanotkunar Sigvalda, hvítur, gulur og blár. Hvítur er á þeim flötum sem íbúðir eru staðsettar, guli liturinn myndar dýpt og ýkir skugga en blái liturinn rammar inn aukarými byggingarinnar s.s. geymslur, kjallara og þvottahús. Nýlegar endurbætur á húsinu sem stóðu yfir um árabil hafa miðast að því að varðveita upprunaleika hönnunar Sigvalda. Til að mynda var skipt um alla glugga, gert við húsið að utan og það málað. 

Skólastræti 5 er í búðarhús Einars Jónssonar „snikkara“ var reist árið 1856 og er meðal elstu húsa í Reykjavík. Í því má lesa hvernig lítil 19. aldar íbúðarhús stækkuðu eftir tísku og efnahag er leið á öldina en húsið var lengt til norðurs og byggður á það breiður miðjukvistur 1865. Árið 1889 var það síðan hækkað um eina hæð. Húsið er eitt af elstu íbúðarhúsum í miðbæ Reykjavíkur en það hefur jafnframt ótvírætt gildi sem partur af hinni upprunalegu timburhúsabyggð sem prýðir brekkuna austan Lækjargötu. Ytra byrði hússins var friðlýst 1992. Húsið er enn í dag nýtt sem íbúðarhús en endurbætur á því hafa staðið yfir í langan tíma. Endurbætur á austurhlið hússins (eina hliðin sem ekki hafði verið færð til upprunalegs horfs) hófust árið 2018. Þá var bárujárn fjarlægt og húsið klætt í upprunalegum stíl, með listaþili og vatnsklæðningu.

Viðurkenningar árið 2021 hljóta eftirfarandi tvær lóðir og tvö hús:

Lóðir 2021:

Suðurgata 12. Stofnanalóð. Hér er um að ræða gagngera endurnýjun á lóðinni þar sem vel hefur verið vandað til verka. Garðurinn fegrar alla götumynd Suðurgötunnar einnar elstu götu í gömlu Reykjavík. Efnisval og útfærslur eru einstaklega smekklegar og vel leystar ásamt öllu gróðurvali. Lóðin er einnig snyrtileg og viðhaldið er gott. Neðst í lóðinni við gangstétt á Suðurgötu er komið fyrir listaverki eftir Kristin Hrafnsson sem er skemmtileg viðbót við góða hönnun lóðarinnar.

Lágaleiti 1-9, Vörðuleiti 2 & Efstaleiti 19-27. Fjölbýlishúsalóð. Lóðin stendur á svokölluðum RÚV-reit sem var skipulagður í takt við áherslur Aðalskipulags Reykjavíkur um þéttingu byggðar. Hér er um að ræða vandaða hönnun á fjölbýlishúsalóð. Gott aðgengi er á lóðinni og aðstæður fyrir börn og fullorðna til fyrirmyndar. Fjölbreyttir notkunarmöguleikar eru fyrir alla aldurshópa.  Lóðin er snyrtileg og viðhaldið er gott. Gróðurval á lóðinni er fjölbreytt sem skapar mjúka ásýnd.

Eldri hús 2021:

Íþaka / Lækjargata 5a: Íþaka var reist sem bókhlaða Menntaskólans í Reykjavík árið 1867 og er það hlaðið steinhús úr höggnum grástein. Danski byggingarmeistarinn C Klentz sá um byggingu og líklega hönnun þess. Upphaflega voru útveggir kalkaðir og þak skífulagt. Bogadregnir pottjárnsgluggar prýddu allar hliðar hússins. Upphaflega var inngangur í húsið frá Bókhlöðustíg en gatan dregur nafn sitt af húsinu. 

Íþaka er partur af elstu og heillegustu götumynd Reykjavíkur en götumyndin (frá Stjórnarráðshúsinu sem stendur nyrst og Íþöku sem stendur syðst) einkennist af húsum sem byggð voru á 18. og 19. öld og eru nú friðlýst. Nýlegar endurbætur á Íþöku sem gerðar voru eftir teikningum Argos arkitekta miðuðust að því að færa húsið sem næst upprunalegu útliti. Sem dæmi um breytingar utanhúss var bárujárn fjarlægt af þaki og það skífulagt í upprunalegum stíl. Gert var að upprunalegum pottjárnsgluggum og þeir endurglerjaðir. Þá var útidyrahurð aftur komið fyrir á upprunalegum stað á suðurgafli hússins. Annar frágangur endurbóta miðaðist við upphaflega gerð hússins og þykir til fyrirmyndar. 

Tjarnargata 28: Húsið var byggt fyrir Eggert Briem skrifstofustjóra árið 1907 en hönnuður þess er ókunnur. Upphaflegt hús var reist með port, risi og kjallara í bárujárnssveitserstíl sem einkennir byggðina undir Tjarnarbrekkunni. Gildi hússins er því mikið fyrir þá röð friðlýstra timburhúsa sem reist voru í byrjun 20. aldar í sambærilegum byggingarstíl. Nýlegar endurbætur á ytra byrði hússins sem gerðar voru eftir teikningum Glámu-Kím arkitekta fólu m.a. í sér að byggja kvist á austurhlið hússins (Tjarnargötumegin), reisa vegg við lóðarmörk úr grágrýti og mála veggi og tréverk samkvæmt þeim litaupplýsingum sem fundust í húsinu og tíðaranda upprunalegs byggingarstíls. Ofangreindar viðbætur ásamt öðrum endurbótum hafa verið útfærðar af virðingu fyrir upprunalegum stíl hússins og nærumhverfi þess.

Starfshópur um viðurkenningarnar

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar veitir viðurkenningarnar eftir tilnefningar frá starfshóp sem skipaður var eftirfarandi aðilum:

Alma Sigurðardóttir, verkefnastjóri húsverndar f.h. Borgarsögusafns og af umhverfis- og skipulagssviði: Ólafur Melsted, landslagsarkitekt/verkefnisstjóri, Pétur Andreas Maack, arkitekt/borgarhönnuður, Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður og Sólveig Sigurðardóttir, arkitekt/verkefnisstjóri.