Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2019

Umhverfi Skipulagsmál

""

Viðurkenningar fyrir fallegar lóðir fjölbýlishúsa og fyrirtækja og vandaðar endurbætur á eldri húsum í Reykjavík árið 2019 voru veittar við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar veittu  viðurkenningarnar.

Í tengslum við afmæli Reykjavíkurborgar eru árlega veittar viðurkenningar fyrir fallegar stofnana- , fyrirtækja- og fjölbýlishúsalóðir og fyrir endurbætur á eldri húsum.

Viðurkenningar árið 2019 hljóta eftirfarandi fimm lóðir og þrjú hús:

Lóðir

Tryggvagata 12-14

Viðurkenning fyrir skemmtilega og vandaða fyrirtækjalóð. Skemmtilegt útisvæði þar sem efnismeðferð og frágangur er til fyrirmyndar. Vel unnin baklóð með aðgengi frá Vesturgötu og Norðurstíg. Grjót, hellur, corten stál viður og grasfletir brjóta rýmið upp. Skemmtilega unnið með rými og hæðasetningar húsanna í kring

Birkimelur 3, Blómatorgið

Viðurkenning fyrir snyrtilegt og aðlaðandi útiumhverfi við blómabúðina að Birkimel. Gatan hefur nýlega verið tekin í gegn og byggingin og útisvæðið sómir sér vel í umhverfinu og er snyrtilega viðhaldið.

Hádegismóar 1

Fær viðurkenningu fyrir nýlega framkvæmda, stílhreina og vel hannaða atvinnulóð. Um er að ræða frekar látlausa hönnun sem fer einkar vel við umfangsmikla bygginguna.

Starengi 8-20, 20a og 20b

Viðurkenning fyrir vel viðhaldna og snyrtilega fjölbýlishúsalóð í grónu úthverfi í Grafarvoginum. Gróðurinn nýtur sín vel og  leik- og dvalarsvæði eru í forgrunni í garðinum.

Icelandic Street Food – Laugavegi 85

Fær viðurkenningu snyrtilegt útiumhverfi við Laugaveginn. Veitingasvæði afmarkað á látlausan hátt með palli. Ríkulega skreytt sumarblómum og skiltun á húsvegg og gluggum gera mikið fyrir göturýmið.

Eldri hús

Túngata 18

Húsið að Túngötu 18 var teiknað af Guðjóni Samúelssyni árið 1922. Árið 1955 var húsið tekið í notkun fyrir þýska sendiráðið en í dag er það sendiráðsbústaður Þýskalands. Ytra borð hússins var friðað árið 1991. Nýlegar endurbætur hafa fært húsið nær sinni upprunalegu mynd, m.a. með nýjum smárúðugluggum og er breytingin til fyrirmyndar.

Laugarásvegur 11

Húsið að Laugarásvegi 11 var teiknað árið 1955 af Guðmundi Kr. Kristinssyni arkitekt fyrir Jóhannes Nordal og fjölskyldu hans. Húsið endurspeglar nýjustu strauma í byggingarlist 6. áratugar síðustu aldar. Það endurheimti nýverið mikilvæg listræn einkenni þegar litasetningu þess var breytt í samræmi við upprunalegt útlit.

Bókhlöðustígur 2

Húsið að Bókhlöðustíg 2 var byggt árið 1882 sem íbúðarhús fyrir Eirík Briem, menntaskólakennara og alþingismann. Húsið er friðað vegna aldurs og hefur að mestu leyti haldist óbreytt hið ytra frá því um 1916. Húsið skipar mikilvægan sess í borgarlandslaginu og hafa nýlegar endurbætur verið gerðar með það að leiðarljósi að halda í upprunalegt útlit þess. 

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur veitir viðurkenningarnar og hefur til hliðsjónar tillögur frá vinnuhópum sem eftirtaldir aðilar fengur tillögur frá;

Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður á umhverfis- og skipulagssviði.

Björn Ingi Edvardsson, landslagsarkitekt skipulagsfulltrúa á umhverfis- og skipulagssviði

Sólveig Sigurðardóttir, arkitekt skipulagsfulltrúa á umhverfis- og skipulagssviði.

Reykjavíkurborg óskar þeim sem hlutu viðurkenningu í ár innilega til hamingju og þakkar þeim fyrir að fegra umhverfið og vera þannig öðrum fyrirmynd.