Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2018

Hverfisskipulag Mannlíf

""

Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, afhenti fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2018 við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. Árlega eru veittar viðurkenningar fyrir endurbætur á eldri húsum og fallegar stofnana-, fyrirtækja- og fjölbýlishúsalóðir.

Viðurkenningar árið 2018 hljóta tvær fjölbýlislóðir, ein atvinnulóð og þrjú hús.

Vandaðar endurbætur á eldri húsum:

Um er að ræða hús sem annars vegar eru reist í byrjun 20. aldar og um miðja  20. öld og eru góð dæmi um húsagerð og byggingarlist síns tíma. Nýlegar endurbætur á þessum húsum hafa verið gerðar af fagmennsku og virðingu fyrir upprunalegri gerð þeirra svo að þau eru nú til mikillar prýði í umhverfi sínu.

Fríkirkjuvegur 3

Húsið að Fríkirkjuvegi 3 var byggt árið 1905 sem íbúðarhús í stíl sem kallaður hefur verið hinn íslenski bárujárnssveitserstíll. Höfundur hússins er ókunnur en Sigurður Thoroddsen verkfræðingur reisti húsið fyrir sig og fjölskyldu sína. Húsið var friðað af borgarstjórn Reykjavíkur árið 1978, en það er mikilvægur hluti af einni best varðveittu götumynd frá upphafi 20. aldar í Reykjavík og hefur mikið varðveislugildi. Breytingar og endurbætur á húsinu eru vandaðar og voru gerðar í samræmi við gerð og aldur hússins.

Nýlendugata 24

Nýlendugata 24 er íbúðarhús, byggt árið 1906 er einnig í íslenskum bárujárnssveitserstíl. Höfundur hússins er ókunnur en fyrsti eigandi var Jóhannes Guðmundsson skipstjóri. Húsið er hluti af þeirri byggð sem reis norðan Vesturgötu í kringum aldamótin 1900 og fellur vel að götumynd Nýlendugötu. Húsið hefur haldið upphaflegri gerð og verið varðveitt af kostgæfni með tilliti til upprunalegs útlits.

Selvogsgrunn 23

Selvogsgrunn 23 er einbýlishús, teiknað árið 1957 af Sigvalda Thordarson. Húsið er í módernískum stíl og í því fá mörg af einkennum Sigvalda að njóta sín svo sem hreinar línur, afmarkaðir fletir og litaval. Nýlegar endurbætur á húsinu hafa verið framkvæmdar af kostgæfni og eru í samræmi við upprunalega hönnun og stíl hússins.

Lóðir:

Fjölbýlislóðir:

Brautarholt 7, stúdentaíbúðir

Fær viðurkenningu fyrir snyrtilega og vel frágengna lóð.

Einholt 8-12 og Þverholt 19-23, fjölbýli

Fá viðurkenningu fyrir gróðursæla, efnisríka og snyrtilega lóð með nægum hjólastæðum. Lóðin gerir mikið fyrir hverfið og gott flæði fyrir almenning er í gegnum hana.

Atvinnulóð:

Laugavegur 120, Center Hótel Miðgarður

Fær viðurkenningu fyrir aðlaðandi og fallegt útisvæði þar sem klöppin í holtinu skipar sérstakan sess.

 

Viðurkenningarnar eru veittar í samræmi við tilnefningar frá vinnuhópum sem í sátu:

Vegna viðurkenninga fyrir lóðir fjölbýlishúsa og fyrirtækja/stofnana:

Björn Ingi Edvardsson, landslagsarkitekt  á Umhverfis- og skipulagssviði.

Edda Ívarsdóttir  borgarhönnuður á Umhverfis- og skipulagssviði.

Vegna viðurkenninga fyrir endurbætur á eldri húsum:

Alma Sigurðardóttir verkefnisstjóri, Borgarsögusafni Reykjavíkur og

Margrét Þormar, arkitekt skipulagsfulltrúa á Umhverfis- og skipulagssviði.