Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2017

Mannlíf Skipulagsmál

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti í dag fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Höfða. Alls voru veittar fimm viðurkenningar fyrir hús, lóðir og sumargötu. 

Á afmæli Reykjavíkurborgar 18. ágúst, eru árlega veittar viðurkenningar fyrir endurbætur á eldri húsum og fallegar stofnana-, fyrirtækja- og fjölbýlishúsalóðir. 

Viðurkenningar árið 2017 hljóta ein fjölbýlisahúslóð, eitt almenningsrými á hafnarsvæði, útisvæði við sumargötur og tvö hús fyrir vandaðar endurbætur.

Vandaðar endurbætur á eldri húsum:

Brekkustígur 5A  

Húsið stendur á baklóð við götuna og er steinbær sem byggður var árið 1880. Hann hefur frá upphafi verið nefndur Garðbær og var upphaflega byggður úr grjóti en með timburgafli. Þá var líka torfþak á bænum en þegar hann var endurbættur árið 1901 var sett á hann járnþak og gaflarnir járnklæddir. Þá var einnig byggður inngönguskúr við hann.

Steinbæir er sérreykvísk húsagerð sem varð til eftir byggingu Alþingishússins árið 1880 en með því urðu tímamót í byggingu steinhúsa þar sem Íslendingar lærðu þá iðn að höggva til grjót. Einnig voru þá reist fjölmörg lítil steinhús en munurinn á þeim og steinbæjunum eru að steinhúsin eru með öllum fjórum veggjum úr tilhöggnu grjóti en gaflar steinbæjanna voru úr timbri. Alls voru hlaðnir um 130 steinbæir í Reykjavík á tímabilinu 1860 til 1910 en eftir miðja 20. öld tóku þeir óðum að týna tölunni og aðeins stóðu 17 steinbæir eftir í borginni árið 2012 þegar ákveðið var að friða þá alla.

Viðgerð á Garðbæ hefur staðið yfir í nokkur ár og hefur Húsverndarsjóður Reykjavíkur veitt styrki til verkefnisins. Mjög vel hefur verið staðið að viðgerðinni og hefur bærinn verið færður í nánast upprunalegt horf.

Blómvallagata 2

Húsið er íbúðarhús í fúnkísstíl, steinsteypt og steinað að utanverðu. Það var reist árið 1936 eftir teikningu arkitektanna Einars Sveinssonar og Sigmundar Halldórssonar og hét þá Hávallagata 19.

Fyrstu eigendur hússins voru Haraldur Ágústsson kaupmaður og kona hans Steinunn Helgadóttir sem byggðu það í samstarfi við Byggingarsamvinnufélagið Félagsgarð sem var eitt þeirra byggingarsamvinnufélaga sem stofnuð voru eftir setningu laga um byggingarsamvinnufélög árið 1932. Einar Sveinsson teiknaði breytingar á vesturhlið hússins árið 1956 og teiknaði hann um leið bílskúr sem stendur austan megin við húsið, og garðvegg umhverfis það.
Endurbætur á húsinu hafa tekist vel, steiningin er falleg og viðgerð á garðveggnum hin faglegasta.

Fjölbýlishúsalóð: 

Sléttuvegur  11-13  

Lóðin við Sléttuveg fær viðurkenningu fyrir fallega, vel hirta lóð og gróna fjölbýlishúsalóð. Hönnun lóðar býður upp á dvöl í einrúmi og einnig til félagslegra athafna.

Almenningsrými á hafnarsvæði:
Þúfan

Fær viðurkenningu fyrir athyglisvert og listrænt almenningsrými á svæði sem auðgar mannlífið og gefur nýtt sjónarhorn á borgarmyndina.

Sumargötur:
Laugavegur 21,  Kaffibrennslan

Fær viðurkenningu fyrir að ná að skapa lifandi útiumhverfi sem smitar út frá sér við göngugötuna. Gefur fólki tilefni til að staldra við og spjalla. Aðkoma er snyrtileg og til fyrirmyndar.

Eigendur og fulltrúar fyrirtækja og lóða tóku við verðlaununum í Höfða í dag. Reykjavíkurborg óskar viðurkenningarhöfum til hamingju.

Viðurkenningarnar eru veittar í samræmi við tilnefningar frá vinnuhópum sem í sátu:

Vegna viðurkenningar fyrir lóðir fjölbýlishúsa og fyrirtækja/stofnana

  • Björn Ingi Edvardsson, landslagsarkitekt  á Umhverfis- og skipulagssviði
  • Edda Ívarsdóttir  borgarhönnuður á Umhverfis- og skipulagssviði

Vegna viðurkenningar fyrir endurbætur á eldri húsum

  • María Gísladóttir arkitekt, Borgarsögusafni Reykjavíkur
  • Margrét Þormar, arkitekt skipulagsfulltrúa á Umhverfis- og skipulagssviði