Fallegur og heilnæmur íbúðakjarni

Framkvæmdir Skipulagsmál

Hagasel

Fallegur og heilnæmur íbúðakjarni stendur við Hagasel 23 í Breiðholti, þetta er fjölbýlishús úr timbri á tveimur hæðum. Hér er ekki aðeins um að ræða fyrstu Svansvottuðu byggingu Reykjavíkurborgar, heldur fyrsta verkefnið af þessu tagi þar sem opinber aðili er leyfishafi. Það var því ástæða til að hitta arkitektana og spyrja nánar út í verkefnið. 

Ydda arkitektar deiluskipulögðu og hönnuðu bygginguna. Hildur Ýr Ottósdóttir, eigandi Yddu, og Hjördís Sóley Sigurðardóttir hönnuðu húsið fyrir Félagsbústaði og Reykjavíkurborg og var það tekið í notkun haustið 2022 og hlaut það Svansvottun vorið 2024.

Íbúðarkjarninn er staðsettur í rótgrónu hverfi og á lóð sem liggur við göngustíg þar sem stutt er í nærliggjandi tjörn og opið grænt svæði. Við deiliskipulagsvinnuna lögðu arkitektarnir áherslu á að íbúðarkjarninn sæti vel í götumyndinni, myndi falla vel inn í umhverfi og að þakform, hæðir og uppbrot væri í samræmi við núverandi byggð. Áhersla var einnig á að form byggingarinnar myndaði skjólgóðan garð með opnun til suðurs.

Íbúðarkjarninn er á tveimur hæðum og með átta íbúðum þar af er ein starfsmannaíbúð. Sérinngangur frá garði er að hverri íbúð sem er um 70 fermetrar, með fallegum innréttingum og náttúrulegum kork á gólfum. Íbúðirnar eru hannaðar með það að leiðarljósi að svara þörfum íbúa þar sem rými er fyrir næði og rými fyrir samveru. Áhersla var að tryggja góða dagsbirtu og vistvæna búsetu. Það var gert með því að huga vel að staðsetningu rýma og tengingu þeirra á milli og hvernig dagsbirtan fellur inn í hvert rými, til að mynda er góð dagsbirta til að elda, nærast og dvelja þar sem rýmið snýr að suðurgarði, en meira næði og óbein birta þar sem sjónvarp og seturými eru staðsett. Litlar svalir eru á efri hæð og lítil verönd framan við íbúðir á jarðhæð. 

Nærandi umhverfi og hvatar fyrir samveru

Arkitektarnir lögðu áherslu á að íbúar væru með útirými fyrir samveru og góða tengingu við garðrými. Áhersla er á gróðurríkan og skjólgóðan garð með plöntum, bekkjum og aðstöðu til ræktunar sem einnig er til prýðis fyrir aðra íbúa hverfisins. Þær fengu með sér í lið Dagnýu landslagsarkitekt hjá DLD við hönnun á lóðinni.

Hönnunin á íbúðarkjarnanum var langt komin þegar arkitektarnir fóru að kanna með að fara með bygginguna í Svansvottun þar sem öll hönnunin og hugmyndafræðin á bak við íbúðirnar hvað varðar gæði rýma, dagsbirtu, hljóðvist og efnisval og fleira var í fullu samræmi við kröfur Svansins. Með því að fara með íbúðarkjarnann í Svansvottun var hægt að tryggja aukin gæðastimpil fyrir heildarhönnunina og eftirlit. Megin markmið arkitektana var að íbúum liði vel í sinni íbúð og að hvatar væru fyrir samveru og nærandi umhverfi fyrir líkama og sál.

Gott fyrir heilsuna og umhverfið

Gildi Svansvottunar Hagasels 23 felst í því að tryggja að húsið sé vistvænt, gott fyrir heilsuna og umhverfið. Engin efni sem geta flokkast sem eiturefni voru notuð við byggingu þess. Allt efni í byggingunni og allar byggingaraðferðir eru svansvottaðar. Nefna má til að mynda að gerðar eru nákvæmar kröfur um raka á meðan á byggingartíma stendur auk þess sem vatnsnotkun og efnisúrgangi er haldið í lágmarki.

Svansvottaðar byggingar eru metnar út frá þeim þáttum sem eru viðamestir í lífsferilsnálgun, eins og að tryggja góða innivist með góðri loftræstingu og hljóðvist, hagkvæma orkunotkun, gæðastjórnun í byggingarferlinu og gerð rekstrar- og viðhaldsáætlunar fyrir líftíma byggingarinnar. Handbók um viðhald fylgir eigninni sem eigandi byggingar ber ábyrgð á. 

Svanurinn er þekktasta umhverfismerkið á Norðurlöndum og uppfyllir það ISO 14024 staðalinn. Vottunin byggist á tilteknum fjölda skyldukrafna ásamt stigakerfi þar sem þarf að ná lágmarksfjölda stiga til að hljóta vottunina. 

„Það er gefandi og lærdómsríkt að fylgja þessu ferli og allir sem koma að verkinu læra eitthvað,“ segir Hildur Ýr og að mikilvægt sé að allir vinni að sama markmiði sem koma að verkefninu. Þetta krefst meira eftirlits á verkstað og skráningu á efnum sem notuð eru í verkið. Aðgengi að byggingavörum með Svansvottun eða sambærilega vottun er orðin mjög góð. 

En hver er munurinn á Svansvottaðri byggingu og öðrum? 

Svansvottuð bygging staðfestir að ákveðnum kröfum og áherslum hefur verið fylgt samanber „góða innivist, loftgæði, dagsbirtu, loftun, endingu og að viðhaldið verði í sömu gæðum,“ segir Hjördís. Við val á efnum fyrir Hagasel var hugað að þessum þáttum og útveggir og burðaveggir inni ásamt milligólfi er úr krosslímdu límtréi, CLT einingum. Að utan er byggingin klædd með hitameðhöndlaðri furu. 

Með efnisvalinu voru þær að stuðla að sem minnstri kolefnislosun byggingarinnar. þar sem sá þáttur vegur hvað þyngst þegar horft er til heildarkolefnislosunar byggingar á líftíma hennar.

Arkitektarnir lögð til við Félagsbústaði að fara í Svansvottun og jafnframt að tileinka sér þessa vottun á framkvæmdum í framtíðinni, hvort sem er við viðhald eða nýjar byggingar. Samkvæmt aðgerðaráætlun stjórnvalda og Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð fyrir 2030 er markmiðið að draga úr heildarlosun árið 2030 um 43%. Mikilvægt er að draga úr losun á byggingarefnum og að allir aðilar sem koma að hönnun og að framkvæmd séu samtaka um að gera sitt besta, segja Hildur og Hjördís. 

Arkitektarnir áttu í góðri samvinnu við Umhverfisstofnun sem er leyfishafi Svansins á Íslandi. 

Mikilvægt er að ráðfæra sig strax við Umhverfisstofnun ef stefnt er að því að byggja  Svansvottaða byggingu.

Félagsbústaðir tóku vel í að fara þessa leið en nefna má að gott úrval er af umhverfisvottuðu byggingarefni hérlendis sem uppfyllir jafnframt strangar kröfur Svansins um innihald og gæði. Það er því allt til reiðu vilji hlutaðeigandi fara þessa heppilegu leið, meginmarkmið Svansvottunar er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga, sporna við hnattrænni hlýnun og vernda heilsu þeirra sem koma að verkinu, bæði fyrir og á eftir. 

Svansvottunin er mjög í anda við Græna planið hjá Reykjavíkurborg og verður haldið áfram á þessari braut. Þannig stendur til dæmis til að nota leiðir eins og lífsferilsgreiningu við hönnun húsa, en það er aðferðarfræði við að skoða umhverfisáhrif byggingarefnis á öllum stigum byggingar, og líftímakostnaðargreiningu, sem er greining á heildarkostnaði við byggingu og rekstur frá upphafi til enda. Þá má nefna að leikskólar í endurnýjunarferli verða Svansvottaðar. 

Aðrir hönnuðir sem komu að hönnun á Hagaseli 23 voru Víðsjá sem sá um burðarþol og lagnir. Mannvit sá um brunahönnun og Efla um hljóðhönnun. DLD sá um landslagshönnun.